Rammaáætlun: tillaga um þrjá virkjunarkosti á Vestfjörðum í nýtingarflokk

Skúfnavatnavirkjun. Mynd: Orkustofnun.

Verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur kynnt tillögu sína um flokkun á fimm virkjunarkostum. Lagt er til að fjórir þeirra fari í nýtingarflokk og einn í verndarflokk. Þrír virkjunarkostanna eru á Vestfjörðum og er lagt til að allir flokkist í nýtingarflokk.

Það eru Tröllárvirkjun í Vattarfirði, sem er með 13,7 MW uppsett afl, Hvanneyrardalsvirkjun í Ísafirði 13,5 MW og Skúfnavatnavirkjun á Langadalsströnd 16 MW.

Hvanneyrardalsvirkjun byggir á miðlun vatns úr sjö vötnum á Glámuhálendinu og hluti vatnanna eru þau sömu og framkvæmdaraðili Tröllavirkjunar hyggst nýta. Það er því val um aðra hvora virkjunina en ekki báðar.

Hinir tveir virkjunarkostirnir eru Bolaalda, 100 MW jarðvarmavirkjun á Hellisheiði og Hamarsvirkjun Í Hamarsdal í Múlaþingi á Austurlandi. Lagt er til að Hamarsvirkjun fari í verndarflokk.

Fjórir undirhópar lögðu mat á kostina og gáfu einkunn frá 1 upp í 5. Hærri tala þýðir meiri hagkvæmni, minni umhverfisáhrif, meiri jákvæð samfelagsleg áhrif og minni áhrif á aðra hagsmuni. Háar tölur gera því virkjunarkostinn álitlegan:

Eins og sjá má þá er Skúfnavatnsvirkjun álitlegust af vestfirsku kostunum þremur og fær heldur hærri einkunn en Hvanneyrardalsvirkjun. Tröllárvirkjun fær afar lága einkunn í hagkvæmni en góða í samfélagslegum áhrifum og á aðra hagsmuni.

Allir fá virkjunarkostirnir þrír þá einkunn að áhrif þeirra á orkuöryggi verði verulega jákvætt. Kostnaðarverð raforkunnar er reiknað lægst fyrir Skúfnavatnavirkjun 4,9 kr/kWh en hærra fyrir hinar tvær. Fyrir Tröllárvirkjun er það 6,6 kr/kWh og fyrir Hvanneyrardalsvirkjun 7,5 kr/kWh.

Verkefnisstjórnin gerir grein fyrir sjónarmiðum að baki vali sínu og segir að orkuöryggi sé ekki tryggt á Vestfjörðum og landhlutinn er ekki nægjanlega tengdur dreifikerfinu í landinu.

„Því eru rík sjónarmið um orkuöflun innan svæðisins og þá sérstaklega nærri þeim tengivirkjum sem fyrir eru og þeim hluta Vestfjarða þar sem notendur eru flestir. Þau sjónarmið vógu sérstaklega í mati verkefnisstjórnar á virkjunarkostunum tveimur á Glámuhálendinu, þrátt fyrir að þeir hafi allnokkur áhrif á náttúruverðmæti svæðisins.“

Þá er bent á að þegar eru í nágrenni þessara kosta, einkum Skúfnavatnavirkjunar tveir virkjunarkostir í nýtingarflokki, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal og það hafi áhrif á hagkvæmni.

Þessir kostir eru opnir í tvær vikur fyrir almenning til þess að gefa umsögn og rennur tíminn út 21. júní n.k. Í framhaldi af því er svo gert ráð fyrir að hefja formlegt 12 vikna umsagnarferli um tillögur verkefnisstjórnar.

DEILA