Póstboxum fjölgar – Pósthúsum fækkar

Íslandspóstur gerði breytingar á afgreiðsluneti sínu 1. júní. Felast þær aðallega í því að afgreiðslustöðum, gömlum pósthúsum, verður fækkað en afgreiðsla í póstbox og með bifreið verður aukin. 

Pósthúsin sem um ræðir eru á Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík, Ólafsfirði, Búðardal, Grundarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Breiðdalsvík og Neskaupstað.

Pósturinn segir í tilkynningu að í næsta mánuði verði póstboxin orðin alls 100 talsins og séu þau vinsælasti kosturinn hjá Póstinum í dag enda þróun afgreiðslulausna í póstþjónustu verið mjög hröð á síðustu árum. 

Búið er að setja upp póstbox á öllum þeim tíu stöðum sem loka pósthúsum á morgun en nýlega bættust við póstbox í Búðardal, Súðavík og á Suðureyri, Grundarfirði, Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík og Ólafsfirði.

Þá eru þrjú ný póstbox komin upp á Austurlandi, á Breiðdalsvík, Djúpavogi og Eskifirði og er unnið að því að finna stað undir póstbox á Stöðvarfirði sem áætlað er að opni í haust. Þá hefur póstboxið í Neskaupstað verið stækkað vegna mikillar notkunar.

DEILA