Línuveiðarinn Pétursey ÍS 100 var 91 tonn að stærð, smíðuð árið 1902 í Kristiansund í Noregi. Var hún eign hlutafélagsins Vísis frá Súgandafirði, en gerð út frá Ísafirði. Pétursey hafði áður verið gerð út frá Hafnarfirði en var seld þaðan árinu áður en hún fórst.
Pétursey lagði af stað þann 10. mars 1941 frá Vestmannaeyjum, en þar hafði hún tekið kol, áleiðs til Fleetwood með fiskfarm. Þegar hún átti ófarinn fimmtung leiðarinnar til Barra Head, eða 300 mílur suður af Vestmannaeyjum mætti hún vb. Dóru frá Hafnarfirði, er þá var á heimleið. Var þá komið besta veður. Síðan spurðist ekkert til hennar.
3. september sama ár var vélbáturinn Svanur frá Keflavík, staddur um 18 mílur út af Garðsskaga, og sá þá fleka í sjónum, sem merktur var íslenska fánanum. Innbyrtu þeir flakið og létu fara svo um það, að sem minnst rask yrði á því. Flutti Svanur flakið síðan til Reykjavíkur, þar sem Friðrik Ólafssyni, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Sveini Sæmundssyni, yfirlögregluþjóni, var falið að rannsaka það. Við rannsóknina kom í ljós, að skothríð hafði dunið á stýrishúsinu, sérstaklega á bakborða. Voru víða brot úr sprengikúlum í þakinu og á þeim voru stafir. Flakið var 3 m á lengd og 1½ m á breidd.
Síðar kom í ljós að þýski kafbáturinn U-37 undir stjórn Asmus Nicolais Clausen hafði sökkt Pétursey, þann 12. mars við 59,33°N og 12,16°V. Pétursey reyndist vera síðasta skipið af 55 sem kafbáturinn sökkti, því eftir þessa ferð var hann gerður að kennslu og þjálfunarbát.