Patreksfjörður: Rampur númer eitt þúsund og tvö hundrað vígður á Vestfjörðum

Frá Vinstri: Ástþór Skúlason (bóndi á Melanesi), Gunnþórunn Bender (forseti bæjarstjórnar), starfsmaður Rampa, Magnús Árnason (Verkefnastjóri Tálknafjarðar og Vesturbyggð), Páll Vilhjálmsson (formaður bæjarráðs), Gerður Björk Sveinsdóttir (Starfandi bæjarstjóri Sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar) og Arnheiður Jónsdóttir (Sviðstjóri fjölskyldusviðs Tálknafjarðar og Vesturbyggð).

Átaki Haraldar Þorleifssonar, Römpum Upp Ísland, vindur áfram og í síðustu viku var rampur númer 1.200 vígður við hátíðlega athöfn við Skor á Patreksfirði. Umræddur rampur er jafnframt sá fyrsti sem er reistur í átakinu Römpum upp á Vestfjörðum. Þessi atburður markar tímamót í átakinu „Römpum upp Ísland”, sem stefnir að því að byggja 1.500 rampa í þágu hreyfihamlaða fyrir 11. mars 2025.

Viðburðurinn vakti mikla athygli heimamanna og fékk góðar undirtektir. Ástþór Skúlason, íbúi á Melanesi á Rauðasandi í Vesturbyggð og ötull baráttumaður fyrir auknu aðgengi í sínu sveitarfélagi klippti á borðann.

Við athuöfnina flutti Gerður Björk Sveinsdóttir, starfandi bæjarstjóra í Sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar ávarp og sagði m.a. : “Við skulum vona að við munum ekki láta staðar numið hér heldur líta á þetta sem hvatningu til okkar og hafa ávallt í huga aðgengismál fyrir alla, bæði  þegar kemur að aðkomu og aðgengi að húsnæði sveitarfélagsins og eins að öðrum stöðum þar sem aðgengismál eiga að vera í lagi.“

Á næstu dögum munu starfsmenn verkefnisins halda för sinni áfram um Vestfirðina og halda áfram að reisa rampa. Þar bíða þeirra verkefni meðal annars á Ísafirði, Hólmavík og Bolungarvík. 

Átakið Römpum upp Ísland hefur nú reist 1.200 rampa og var sá fyrsti tekinn í notkun í maí 2021. Upphaflega var stefnt að því að reisa þúsund rampa, en var sú ákvörðun svo tekin að ganga einu skrefi lengra og reisa eitt þúsund og fimmhundruð rampa. 

Að verkefninu koma margir styrktaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsborg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og Innviðaráðuneytið. Að auki hefur fjölmargt stuðningsfólk lagt hönd á verkið.

Ástþór Skúlason klippti á borðann.

Gerður Björk Sveinsdóttir, starfandi bæjarstjóri flutti ávarp.

Myndir: aðsendar.

DEILA