OV varar við heita vatninu í Tungudal

Frá borstæðinu í Tungudal. Mynd: Eggert Stefánsson.

Orkubú Vestfjarða hefur varað fólk við heita borholuvatninu í Tungudal. Vatnið sé um 58 gráður á Celsius en hitastigið sé breytilegt og því beri að hafa varann á sér við notkun á vatninu.

„Hitastigið á frárennslinu er aðallega háð því hversu miklu vatni er dælt upp úr borholunni en einnig því magni af köldu vatni sem dælt er niður í holuna hverju sinni. Borunin stendur enn yfir og því má einnig búast við því að hitastig heitu uppsprettunnar geti breyst.“ segir í tilkynningu Orkubúsins.

„Hitastigsbreytingar á vatninu geta verið skjótar og það borgar sig þess vegna að fara varlega í kringum frárennslið. Við biðjum því fólk að gæta sérstaklega að börnunum.“

Mikill áhugi er á borholunni og vatninu sem frá henni rennur. „Við erum ótrúlega ánægð með það heita vatn sem hefur fundist í Tungudal. Það er gaman að sjá áhugann og spenninginn hjá bæjarbúum, gestum og gangandi. Fólk stoppar og virðir fyrir sér borinn, heitu vatnsbununa, svarfið og heita lækinn sem rennur frá verkstaðnum. Það er spennandi að velta því fyrir sér hvernig best sé að nýta vatnið til framtíðar og það er líka spennandi að fá að njóta þess núna, dýfa höndunum í vatnið eða jafnvel baða sig í því.“

DEILA