Orkubú Vestfjarða: mesta óvissan er um orku til húshitunar

Fram kom í erindi Elíasar Jónatanssonar, Orkubússtjóra á nýafstöðnum ársfundi Orkubúsins að stærsti óvissuþátturinn í rekstri Orkubúsins þessi misserin væri óvissan um aðgengi að skerðanlegri orku fyrir rafkyntar hitaveitur.

Landsvirkjun hefur tvívegis síðust þrjú ár virkjað heimild til þess að skerða afhendingu á orku til Orkubúsins. Því hefur verið mætt með því að keyra díselvaraflsstöðvar og brenna orlíu. Kostnaður Orkubúsins vegna þess varð um 200 m.kr. á árinu 2022 og um 550 m.kr. á þessu ári.

Samtals þurfti á síðasta ári 105 GWst vegna hitaveitna. Eigin vinnsla OV var aðeins 20,6% en keypt orka var nærri 80%.

Rekstri hætt

Elías sagði á ársfundinum Orkubú Vestfjarða muni standa frammi fyrir þeirri ákvörðun að rekstri fjarvarmaveitna verði hætt á næstu árum ef ekki næst árangur í jarðhitaleit og nýtingu hans á hagkvæman hátt, eða lækkun á aðföngum veitunnar, þ.e. lækkun á orkuverði og flutningskostnaði orku til veitnanna. Yrði það niðurstaðan og húseigendur færu í beina rafhitun eða sjálfstæðar varmadælur gæti enn þurft að auka olíuknúið varaafl til raforkuframleiðslu á Vestfjörðum.

Elias sagði að vonir standi til að hægt verði að nýta jarðhita á Patreksfirði inn á miðlæga varmadælu sem mundi hita vatnið inn á dreifikerfi veitunnar. Þegar hefur fundist 25 °C heitt vatn í nokkru magni sem nýta mætti í þessum tilgangi. Á Ísafirði er líka leitað að heitu vatni sem nýta mætti inn á veiturnar beint, eða inn á miðlæga varmadælu eins og á Patreksfirði og hafa nýjustu tíðindi frá borunum í Tungudal aukist bjartsýni á góðan árangur.

Mikil þörf er á frekari virkjun vatnsafls á Vestfjörðum og er Orkubúið að skoða tvo kosti, Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði og Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði. Unnið er að forathugun í Vatnsdal og beðið svara Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við erindi OV um afléttingu friðunar á fyrirhuguðu virkjunarsvæði. Kvísatunguvirkjun er komin lengra og á þesus ári verður lokið við umhverfismatsskýrslu og skipulag fyrir virkjunina.

DEILA