Noregur: dregur úr blöndun í laxveiðiám – í 90% ánna er blöndunin minni en 4%

Í nýútkominni skýrslu norsku Fiskistofunnar um eftirlit með laxveiðiám í Noregi kemur fram að dregið hefur úr blöndun milli villts lax og eldislax. Það er Hafrannsóknarstofnunin sem annast framkvæmdina í samstarfi við nokkra aðra aðila.

Frá 2014 hefur verið fylgst kerfisbundið með blöndun laxa í ánum. Í skýrslunni fyrir 2023 eru upplýsingar um 189 ár og reyndist blöndunin vera innan við 4% í 90% ánna eða í 171 ám. Er það hærra hlutfall en var 2022 þegar hlutfallið var 86%. Þá voru upplýsingar um 195 ár í skýrslunni.

Fyrsta árið 2014 voru 20% ánna með blöndun yfir 10% en síðan hefur það farið lækkandi og síðustu fjögur árin hefur svo mikil innblöndun verið í færri en 10% ánna.

Miðað er við hvað hvað margir laxar í hrygningarstofni viðkomandi ár eru blandaðir eldislaxi. Í áhættumati erfðablöndunar á Íslandi er miðað við að laxeldið leiði ekki til þess að hlutfallið fari yfir 4%.

Í fyrra reyndust stofnar í 9 ám í Noregi vera með blöndun á bilinu 4% til 10%. Eru það helmingi færri ár en árið áður þegar hlutfallið var 10%. Aðeins í 9 ám reyndist blöndunin vera meiri en 10% sem er 5% af ánum sem fylgst var með.

Á síðasta ári voru aðeins 1.537 eldislaxar sem skráðir voru í ánum sem er það minnsta sem verið hefur. Framleiðslan er um 1,5 milljón tonna af eldislaxi á ári.

Fjöldi eldislaxa sem sleppur hefur farið mjög lækkandi síðasta aldarfjórðunginn. Mest var það um 1,6 lax pr framleitt tonn en er síðustu ár að nálgast núllpunktinn.

Úr skýrslu norsku Hafrannsóknarstofnunarinnar, Havforskningsinstituttet.

Lítil áhrif : úr 60% í 90% af ánum

Fyrsta árið var blöndun innan við 4% í 60% ánna en síðan hefur hlutfallið hækkað og á síðasta ári var svo lítil blöndun í 90% ánna eins og sést á myndinni að neðan úr skýrslunni og tekur til áranna 2014 – 2023.

DEILA