Listasýning: Skeljaverur í Selárdal

Marsibil G. Kristjánsdóttir listakona frá Þingeyri opnar sýningu í Listasafni Samúels í Selárdal Arnarfirði á Sjómannadag. Sýningin samanstendur af skeljaskreyttum og yfirgefnum postulínsdúkkum. Efniviðurinn, skeljarnar, eru sóttur í vestfirskar fjörur þar sem skeldýrafánan er mjög flölbreytt og forvitnileg. Síðustu ár hefur Marsibil unnið mikið með þá gersemi sem finna má í fjörunni. Einsog kufunga, skeljar, ígulker, kalkþörunga og hörpudiska. Úr þessum magnaða efnivið hefur listakonan unnið einstök skeljaveruverk sem verða til sýnis í Listasafni Samúels út júní. Sýningin opnar kl.14.01 á Sjómannadag og verður boðið upp á hjónabandssælu og viðeigandi drykk með.

Marsibil er sjálfstætt starfandi listamaður og býr og starfar fyrir vestan, á Þingeyri. Hún er leikhússtjóri Kómedíuleikhússins ásamt Elfari Loga Hannessyni og hefur hún unnið fjölbreytt verkefni fyrir leikhúsið. Marsibil hefur bæði hannað leikmyndir og búninga við fjölda leikverka auk þess að leikstýra verkum fyrir Kómedíuleikhúsið.  Marsibil hefur haldið fjölda myndlistarsýninga, bæði hér heima og erlendis. Verk hennar eru fjölbreytt; pennateikningar, málverk, grafík og fleira. Hún var einn af listamönnum listverkefnisins Alviðra 2021 og Alviðra 2022. Hún var Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2009.

Marsibil vinnur m.a. við bókband og hefur einnig myndskreytt nokkrar bækur má þar nefna ljóðaverkið Um jólin (2013), barnabókina Muggur saga af strák (2017), ljóðaúrvalið Allir dagar eiga kvöld (2018) og í júní kemur út barnabókin Matti saga af drengnum með breiða nefið hvar Marsibil annast myndskreytingu.

DEILA