Landbúnaður: meta áhrif af kuldatíð í júní

Matvælaráðuneytið hefur sett á fót viðbragðshóp vegna erfiðleika sem skapast hafa í landbúnaði vegna kuldatíðar undanfarið. Þar sitja fulltrúar matvæla- og innviðaráðuneyta, Bændasamtakanna, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Almannavarna og lögregluembættanna á Norðurlandi vestra og eystra. Fleiri kunna að koma að verkefninu eftir því sem því vindur fram.

Matvælaráðherra mun á næstu dögum setja á stofn smærri vinnuhóp sem ætlað er að leggja mat á umfang tjóns til lengri tíma og koma með tillögur um aðgerðir. Fyrsta verkefni hópsins er að formfesta tjónaskráningu. Fulltrúar matvæla- og innviðaráðuneyta og bænda munu skipa hópinn, auk annarra hagaðila sem kallað verður til eftir atvikum. Lögð verður áhersla á miðlun upplýsinga til bænda eftir því sem verkefninu vindur fram.

Hópnum verður jafnframt falið að gera tillögu að viðbragðsáætlun þegar áföll sem þessi verða. Mikilvægt er að bændur skrái allt tjón sem þeir kunna að verða fyrir ásamt því að taka myndir.

DEILA