Kveðja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar á 80 ára afmæli lýðveldisins

Kæru landsmenn.
Hjartanlega til hamingju með afmælið. Í dag fögnum við því að áttatíu ár eru liðin frá stofnun lýðveldis hér á landi. Sautjánda júní kom stór hluti þjóðarinnar saman á Þingvöllum þar sem hið stóra skref var loksins stigið. Æ síðan höfum við stefnt að því að efla og styrkja okkar samfélag, veita öllum tækifæri til að
sýna hvað í þeim býr, sjálfum sér og öðrum til heilla. Því skulum við halda áfram.
Verjum áfram frelsi og réttindi hvers og eins en metum líka mikils samhjálp og samkennd.
Í áttatíu ár hefur rödd hins íslenska lýðveldis heyrst á alþjóðavettvangi. Ísland er ríki meðal ríkja, sjálfstætt smáríki sem hlýtur að styðja alþjóðasamvinnu og alþjóðalög – smáríki sem verður að berjast gegn því að vald hinna sterku ráði öllu í hörðum heimi.
Njótið dagsins, kæru landar, og ég þakka innilega fyrir samfylgdina síðustu átta ár. Gangi ykkur og Íslandi allt í haginn!

DEILA