Kerecis völlurinn á Torfnesi að verða tilbúinn

Kerecis völlurinn á Torfnesi er glæsilegur. Mynd: Ásgeir Hólm.

Vel hefur gengið að leggja gervigrasið á Kerecis völlinn á Torfnesi á Ísafirði. Jóhann Birkir Helgason, eftirlitsmaður frá Verkís með verkinu sagði í samtali við Bæjarins besta í gær að gervigrasið væri komið niður og verið væri að setja festingu niður fyrir mörkin. Næsta verk verður að setja sand yfir grasið. Hann bjóst við því að búið yrði að merkja völlinn seinni partinn í dag og að hann yrði tilbúinn fyrir leikinn gegn Val á laugardaginn.

KSÍ sendir fulltrúa sína til þess að taka út völlinn og verður það væntanlega seinna í dag. Búist er við því að eftir úttektina verði gefin út leikheimild.

Jóhann Birkir segir að verkið hafi gengið vonum framar, þar veðrið var hagstætt meðan vinnan fór fram og margir sjálfboðaliðar voru tilbúnir til þess að leggja hönd á plóg.

Jóhann Birkir var einn þeirra sem tóku höndum saman og söfnuðu fyrir hitalögnum í völlinn sem voru settar í hann þrátt fyrir að Ísafjarðarbær hafi ákveðið að sleppa því. Bærinn samþykkti að styrkja verkið um 4,8 m.kr. og Orkubú Vestfjarða veitti 3 m.kr. styrk. Aðspurður segir Jóhann að aðrir hafi lagt fram 16 m.kr. til þess að af því yrði að leggja hitalagnirnar í völlinn, en hann vildi ekki upplýsa hverjir það voru, sagði aðeins að núna þegar fundist hafi heitt vatn í Tungudal væru allir fegnir að lagnirnar væru komnar í völlinn.

Jóhann Birkir Helgason.

DEILA