Kerecis fær 20 m.kr. styrk frá utanríkisráðuneytinu

Frá afhendingu verðalunannan. Mynd: utanríkisráðuneytið.

Fjögur fyrirtæki fengu í síðustu viku styrki frá utanríkisráðuneytinu úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs vegna samstarfsverkefna í þróunarríkjum. Markmið sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu. Fyrirtækin sem um ræðir eru Hananja, VAXA Technologies, Íslenski sjávarklasinn og Kerecis. 

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu metnaðarfull og ólík verkefnin eru sem nú hljóta styrki. Aðkoma atvinnulífsins og sú fjölbreytta þekking sem þar er að finna eru mikilvægir liðir í því að styðja við þróunarríki og auka þar velsæld. Ég hlakka til að fylgjast með framkvæmd verkefnanna þegar fram líða stundir,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Meðhöndlun brunasára hjá börnum í Afganistan

Kerecis hlaut 24.210.400 króna styrk í alþjóðlegt samstarfsverkefni sem snýr að því að bæta meðferð brunasára í Afganistan en Kerecis framleiðir roð til sáragræðinga. Tækni fyrirtækisins hefur reynst afar vel í meðferð vefjaskaða, hvort sem um er að ræða þrálát sár eða sár af völdum bruna segir í tilkynningu ráðuneytisins. Verkefnið sem um ræðir snýr að meðhöndlun brunasára afganskra barna á brunadeild Indira Gandhi-barnaspítalans, þeim að kostnaðarlausu. Börn í Afganistan verða ósjaldan fyrir alvarlegum bruna, meðal annars vegna opinna eldstæða sem notuð eru til matseldar. Markmiðið er einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í Afganistan til notkunar á þeirri árangursríku meðferð sem sáraroð Kerecis byggir á, til að bæta meðhöndlun sjúklinga og byggja þannig upp langtímahæfni starfsfólks í sjúkraþjónustu.

DEILA