Ísafjörður: 59 undirskriftir gegn íbúðablokk á Sindragötu 4a

Lydía Ósk Óskarsdóttir afhendir Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra undirskriftarlistann. Mynd: aðsend.

Tæplega 60 manns skrifuðu undir lista þar sem mótmælt er byggingu nýrrar 10,5 m hárrar íbúðarblokkar á byggingarreitnum við Sindragötu 4a á Ísafirði. Skipulags- og mannvirkjanefnd segir að byggingaráformin hafi verið samþykkt á 75. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 14. maí 2024.

Mótmælendur skora á bæjaryfirvöld og verktakann að endurskoða áform um hæð og útlit byggingarinnar þannig að hún sé í samræmi við útlit húsanna við Aðalstræti. Minnt er á að gamli bærinn á Ísafirði sé verndarsvæði í byggð og að það yrði mikil mistök ef af byggingunni yrði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar féll frá  í mars sl. grenndarkynningu á fyrirhugaðri nýbyggingu á lóðinni Sindragötu 4A, Ísafirði, þar sem nýjustu uppdrættir uppfylla alla skilmála núgildandi deiliskipulags fyrir lóðina.

Skipulags- og mannvirkjanefnd afgreiddi undirskriftasöfnunina með því að benda á að hægt er að kæra útgáfu byggingarleyfis til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

DEILA