Ísafjarðarbær: verulegar breytingar á gjaldskrá leikskóla

Leikskólinn Sólborg. Mynd: Ísafjarðarbær.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku umtalsverðar breytingar á gjaldskrá fyrir leikskóla í sveitarfélaginu.

Lokunardögum verður fjölgað um fimm á ári.

Auk þess verða teknir upp svonefndir skráningardagar 7 – 10 dagar á ári. Foreldrar þurfa að óska sérstaklega eftir skóladvöl þessa daga með þriggja vikna fyrirvara. Greitt er sérstaklega fyrir þessa daga og er gjaldið 2.700 kr. fyrir hvern skráningardag.

Dvalargjald frá kl. 8:00-14:00 lækkar um 6% og aðrir liðir í gjaldskrá leikskóla lækka um 3%. Gjald fyrir umframtímana fyrir kl. 8:00 og eftir kl. 16:00 verður áfram dýrasti tíminn.

Dvalartími 12-16 mánaða barna verður einungis til kl. 15.00 á daginn.

Leikskólarýmum í Skutulsfirði verði fjölgað.

Í minnisblaði bæjarstjóra til bæjarráðs segir að Ísafjarðarbær greiði að stærstum hluta kostnað við dvöl barna í leikskólum bæjarins. Foreldar greiða hluta kostnaðar í hlutfalli við þann tíma sem börn þeirra dvelja í leikskólanum. „Kostnaðarhlutfall foreldra er í dag um 10-15% af raunkostnaði við að hafa barn í fullri dvöl á leikskóla en því yngri sem börn eru því meiri mannafla þarf til að manna leikskóladeild.“

Þá segir í minnisblaðinu að með breytilegum vistunartíma geti fjölskyldur sniðið leikskóladvöl barna sinna að eigin þörfum. Vistunartími geti þannig verið mismunandi eftir vikudögum og greiði fjölskyldur aðeins fyrir þann tíma sem barnið er skráð í leikskólann. Þannig skapast möguleiki til að lækka leikskólagjöld.

Breytingarnar voru samþykktar með atkvæðum bæjarfulltrúa Í lista og D lista en bæjarfulltrúar B lista sátu hjá.

Bæjarfulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ skilja mikilvægi þess að gera breytingar á fyrirkomulagi leikskólanna til að mæta þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir og samþykkja því þessar tillögur. Sjálfstæðisflokkurinn leggur þó til að skoðað verði í komandi fjárhagsáætlunarvinnu að veita enn meiri afslátt af leikskólavistun frá kl.8:00-14:00, líkt og önnur sveitarfélög hafa gert. Markmiðið með lækkuninni er að gefa foreldrum leikskólabarna raunverulegan kost til að stytta vistunartíma barna sinna, með hag barnanna að leiðarljósi. Foreldrar hafa þá val um að lækka leikskólagjöldin og ná meiri tíma með börnunum sínum. Í leiðinni minnkar álag á starfsfólk leikskólanna og auðveldara verður að manna þá.“

DEILA