Ísafjarðarbær selur hjúkrunarheimilið Eyri

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að leggja til við bæjarstjórn að hefja söluferli á fasteigninni Eyri á Ísafirði. Þar eru 30 rými sem tekin voru í notkun 2016. Ísafjarðarbær á bygginguna en ríkissjóður greiðir húsaleigu til 40 ára sem samsvarar 85% af stofnkostnaði.

Í samningi um byggingu heimilisins milli ríkisins og Ísafjarðarbæjar kemur fram að fasteignin verði í eigu sveitarfélagsins og að óheimilt sé að framselja eignarrétt að húsnæðinu til þriðja aðila á samningstímanum.

Ísafjarðarbær óskaði eftir því fyrr í vetur að ríkið heimilaði sölu á hjúkrunarheimilinu og leigugreiðslum ríkisins til þriðja aðila. Ísafjarðarbær tók lán sem hvíla á eigninni og eru þau íþyngjandi fyrir rekstur sveitarfélagsins.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur veitir heimild fyrir því að sveitarfélagið framselji eignarétt á fasteigninni gegn því að eignin sé seld til aðila sem sérhæfir sig í fasteignarekstri. Í bréfi ráðuneytisins til Ísafjarðarbæjar segir að samþykki þess sé bundið því skilyrði að það hafi ekki nein efnisleg áhrif á þann samning sem þegar er í gildi milli ríkisins og sveitarfélagsins og rekstur hjúkrunarheimilisins sem slíks. Ríkið muni þá greiða leigugjaldið sem kveðið er á um í gildandi samningi til þess aðila sem eignast fasteignina og sá aðili muni þá jafnframt yfirtaka aðrar skuldbindingar af hálfu sveitarfélagsins sem þar er kveðið á um, t.a.m. er varðar viðhald og endurbætur á eigninni.

Fyrir liggur samningur milli ríkisins og Ísafjarðarbæjar um stækkun Eyri um 10 rými og segir í bréfi ríkisins að vel til greina að nýr fasteignaeigandi taki að sér að byggja þá viðbyggingu gegn leigugjaldi frá ríkinu með sérstökum leigusamningi um þau viðbótarrými.

DEILA