ÍS 47: áformar 2.500 tonna eldi í Önundarfirði

ÍS 47 ehf hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um áform um aukið eldi sem nemur 600 tonnum af regnbogasilungi og laxi í sjókvíum í Önundarfirði. Heildar eldismagn ÍS 47 er því áætlað verða 2.500 tonn sem það sama og burðarþolsmat fyrir Önundarfjörð.

ÍS47 er með rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna hámarks lífmassa af regnbogasilungi og þorski í Önundarfirði. Félagið tilkynnti um 900 tonna framleiðsluaukningu á regnbogasilung og laxi í október 2022 sem Skipulagstofnun ákvarðaði að væri ekki matskyld. Nú er tilkynnt um 600 tonna aukningu til viðbótar.

Í tilkynningunni er lýst helstu umhverfisþáttum á svæðinu. Farið er yfir framleiðsluaukningu um 600 tonna eldi, eldisstofni, fóðurnotkun og losun á næringarefnum. Þá er lýst hugsanlegum umhverfisáhrifum aukins eldis, þeim gögnum sem til eru og þeim rannsóknum sem þarf að gera og hugsanlegum mótvægisaðgerðum.

Eldi ÍS47 á regnbogasilungi hófst 2014, en áður hafði félagið stundað þorskeldi í Önundarfirði frá árinu 2010 og þar áður í Skutulsfirði. ÍS47 elur aðeins regnbogasilung þrátt fyrir að rekstrarleyfi sé einnig fyrir þorsk og hefur leyfi á tveimur sjókvíaeldissvæðum Valþjófsdalur (A) og Ingjaldssandur (B). Í dag er eldi stundað við Valþjófsdal (A) en fyrirhugað er að hefja einnig eldi við Hundsá (B).

Í tilkynningunni segir að engar náttúrulegar laxár séu í Önundarfirði. Eldi ÍS47 sé fjarri þekktum laxveiðiám á Vestfjörðum og að regnbogasilungur getur ekki blandast öðrum laxfiskum sem finnast villtir á Íslandi.

Regnbogasilungsseiðin koma frá Ásmundarnesi í Bjarnafirði í Strandasýslu. Gert er ráð fyrir um 12% afföllum við eldi á regnbogasilungnum en allt að 17% við eldi á laxi. Eldisferill hverrar kynslóðar tekur 18-24 mánuði. Svæði er hvílt í 3 mánuði að lokinni slátrun áður en næsta kynslóð er sett út. Fram kemur að aukning ÍS47 um 600 tonn af regnbogasilungi og frjóum laxi muni hafa hverfandi áhrif í för með sér m.t.t. áhættu á erfðablöndun.

Verði fyrirhuguð aukning ekki talin vera matskyld getur fyrirtækið farið að sækja um leyfi fyrir aukinni framleiðslu.en annars verður fyrst að vinna umhverfismat.

Fyrirtækið Rorum ehf vann tilkynninguna fyrir ÍS 47 ehf.

DEILA