Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir vill ekki breyta forgangsröðun jarðganga

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra.

Lagt hefur verið fram á Alþingi svar Svandísar Savarsdóttur, innviðaráðherra við skriflegri fyrirspurn Maríu Rut Kristinsdóttur (C) varaþingmanni Viðreisnar í Reykjavík um uppbyggingu jarðganga.

María Rut spurði hvort til greina kæmi að flýta áætluðum framkvæmdum við Súðavíkurgöng samkvæmt jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar „í ljósi þeirra aðstæðna sem íbúar Súðavíkur og nágrennis búa við vegna snjóflóða- og aurskriðuhættu?“.

Í framangreindri áætlun, sem gildir fyrir árin 2024 – 2038 er jarðgöngum milli Ísafjarðar og Súðavíkur raðað í 5. sæti og er ekki veitt til þeirra fjármagni til rannsókna og undirbúnings. Mun því samkvæmt tillögunni ekkert vera aðhafst til undirbúning jarðgöngum fyrr en eftir 2038.

Ráðherra segir í svari sínu að  forgangsröðunin taki mið af markmiðum samgönguáætlunar um greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæða byggðaþróun. Vísað er til þess að Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri hafi metið alls 18 jarðgangakosti með tilliti til þessara þátta og við forgangsröðunina hafi verið tekið tillit til þess hversu brýn verkefnin væru talin vera.
„Ráðuneytið telur að veigamikil rök þyrftu að koma til þess að breyta forgangsröðun jarðganga frá þeirri áætlun sem kemur fram í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 og byggist á framangreindri vinnu.“ segir í svari ráðherra.

Svandís Svavarsdóttir var einnig innt eftir því hvort hún hefði íhugað að flýta jarðgöngum um Mikladal og Hálfdán „til að tryggja íbúum svæðisins jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og flugsamgöngum allan ársins hring?“

Svarið við seinni spurningunni er einnig ótvírætt:

„Ekki hafa komið fram neinar upplýsingar sem réttlæta breytingu á forgangsröðun jarðgangakosta enda er forgangsröðunin byggð á vönduðu heildarmati Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri á jarðgangakostum á Íslandi frá júlí 2023.  Ráðuneytið telur því ekki ástæðu til að breyta forgangsröðun jarðgangakosta eins og þeir birtast í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038.“

DEILA