Hafró: veiðiráðgjöf á langreyði er byggð á vísindalegum grundvelli

Hafrannsóknarstofnun hefur sent frá sér tilkynningu og segir að ráðfjöf stofnunarinnar um veiðar á langeyði sé byggð á úttektum vísindanefnda bæði Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður Atlantshafs sjávarspendýraráðsins (NAMMCO).

Tilefni tilkynningarinnar er umræða vegna ákvörðunar Matvælaráðherra um að víkja frá ráðgjöf stofnunarinnar og heimila veiðar á mun færri dýrum en lagt er til í ráðgjöfinni.

Hafrannsóknarstofnunin segir að ráðgjöfin byggi á sama grunni og önnur veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir nýtingu sjávarauðlinda. Í ráðgjafarferlinu séu teknar inn upplýsingar um fjölda í skipulögðum hvalatalningum, aldur- og kynjasamsetning stofnsins, frjósemi, lifun, auk veiðitalna. Ólíkt stofnmati og veiðiráðgjöf flestra fiskistofna sem gefin eru árlega, nær ráðgjöfin fyrir langreyði yfir langt tímabil, eða 9 ár í senn. Segir stofnunin það ekki vandamál hjá svo langlífum dýrum eins og langreyðum, sem verða vel yfir 100 ára gamlar.

„Rétt er þó að árétta að vegna hugmyndafræðilegs ágreinings um nýtingu hvala innan framkvæmdanefndar IWC (sem er ekki skipuð vísindamönnum og að mörgu leiti aðskilin frá vísindanefnd ráðsins) veita þau ekki ráðgjöf um nýtingu hvalastofna nema þegar um frumbyggjaveiðar eru að ræða.“

Þá segir í tilkynningunni:

„Bent hefur verið á ráðgjöfin víki frá ráðgjafareglum IWC, þar sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og NAMMCO byggði á því að halda stofnstærðinni yfir 60 % af hámarksstofnstærð en framkvæmdaráð IWC ákvað að stefna á að halda stofnum við 72 % gefi það út ráðgjöf. Engin vísindaleg rök eru fyrir því að velja þessa 72% tölu frekar en aðra á bilinu 60-72%, og má rekja ákvörðunina til þessa sama hugmyndafræðilega ágreinings innan framkvæmdanefndar ráðsins og áður hefur verið minnst á. Vísindanefnd IWC hefur gefið það út að markmiðið um halda stofnum við 60% samræmist varúðarnálgun og markmiðum um hámarksafrakstur. Því byggði NAMMCO sýna ráðgjöf fyrir stórhvalaveiðar á 60% af hámarksstofnstærð fyrir tímabilið 2017-2025, að beiðni íslenskra stjórnvalda.“

Næsta veiðiráðgjöf fyrir langreyðar verður birt að vori 2026 ef stjórnvöld óska eftir slíkri ráðgjöf, byggð á niðurstöðu hvalatalninga sem fara nú fram.

DEILA