Hafnalög: eldisgjald lögfest

Þjónustubátur siglir inn í Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi samþykkti á laugardaginn nýtt gjald til hafnasjóða, svonefnt eldisgjald, sem verður lagt á eldisfisk, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Var það samþykkt með 52 samhljóða atkvæðum en 9 þingmenn frá Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu sátu hjá.

Breytingartillaga frá stjórnarandstöðunni um að ákvæðum um aflagjald yrði breytt þannig að það næði til eldisfisks og yrði í samræmi við tillögur sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum var felld með 34 atkvæðum gegn 22.

Hafnasamband sveitarfélaga og samband íslenskra sveitarfélaga vildu að núverandi lagaákvæði um aflagjald yrði rýmkað og sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur vildu að aflagjaldið yrði minnst 0,7% og mest 3,0% af heildaraflaverðmæti miðað við meðaltal alþjólegs markaðsverðs á Atlandshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram.

DEILA