Grásleppan kvótasett

Svandís Svavarsdóttir þáverandi matvælaráðherra flutti upphaflega frumvarpið um kvótasetningu á grásleppu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi samþykti á laugardaginn frumvarp til laga um kvótasetnngu grásleppuveiða. Lögin taka gildi 1. september 2024. Aflahlutdeild einstakra skipa verði ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengist hefur á grundvelli réttar til grásleppuveiða á árunum 2018 – 2022, að árinu 2020 undanskildu. Einungis fiskiskip undir 15 brúttótonnum fái úthlutað grásleppuleyfi. Samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í grásleppu í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild en 1,5%. Fiskistofa skal úthluta aflahlutdeildum fyrir 1. mars 2025. Framsal aflahlutdeilda verður óheimilt til 31. ágúst 2026.

Landinu verður skipt í fimm staðbundin veiðisvæði á grásleppu. Vestfirðir og Breiðafjörður verður eitt svæði. Veiðileyfi gildir aðeins á tilgreindu svæði og er óheimilt að veiða á öðrum veiðisvæðum. Óheimilt verður að framselja aflahlutdeild og aflamarki á skip sem ekki er skráð á sama staðbundna sveiðisvæðið. Þó verður ráðherra heimilt í reglugerð að kveða á um flutning á aflamarki milli veiðisvæða á yfirstandandi veiðitímabili ef náttúrulegar aðstæður breytast verulega innan veiðisvæðis.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir (V) flutti frumvarpið í fyrra en á þessu þingi var það meirihluti atvinnuveganefndar sem flutti málið.

Í atkvæðagreiðslu um frumvarpið var felld breytingartillaga frá Eyjólfi Ármannssyni (F) um að óheimilt yrði að framselja eða leigja aflahlutdeild í grásleppu. Aðeins 11 þingmenn studdi þá tillögu en 29 greiddu atkvæði gegn henni. Það voru þingmenn Pírata og Flokks fólksins sem studdu framsalsbannið en þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felldu tillöguna svo og annar þingmaður Miðflokksins. Allir þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við tillöguna, þar með talið allir þrír ráðherrar flokksins. Aðrir þingmenn sátu hjá , þ.e. þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar og annar þingmaður Miðflokksins.

Það var svo Bjarni Jónsson (V) sem flutti tilllögu við lokaafgreiðslu málsins um að banna framsal aflahlutdeildar næstu tvö árin og var hún samþykkt með 41 samhljóða atkvæðum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi og þingmaður flokksins í 12 ár sagði sig úr flokknum á laugardaginn vegna þessarar lagasetningar.

Lögðust gegn kvótasetningunni

Frá Vestfjörðum barst umsögn um frumvarpið frá Króki, félagi smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu. Þar segir að félagið hafni „öllum hugmyndum um kvótasetningu grásleppu þar sem engin fiskifræðileg rök liggja fyrir. Grásleppa er ekki ofveidd og einvörðungu verið að reyna hagræða fyrir fámennan hóp.“ Landssamband smábátaeigenda lagðist einnig gegn kvótasetningunni. Í umsögn þess segir að „Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur að vel athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að
veiðistýring á grásleppu með aflamarki svarar engu af því sem ekki er hægt að uppfylla í
núverandi veiðikerfi.“

DEILA