Fyrsta skipti út fyrir höfuðborgina eftir tveggja ára búsetu

Tæplega 4000 manns hefur komið til Íslands frá Úkraínu síðan átök hófust þar í landi fyrir um tveimur árum.

Á fréttavef Rauða krossins er sagt frá því að meðal þeirra sé stór, en oft ósýnilegur hópur eldri kvenna sem neyddust til að skilja allt eftir í heimalandinu – börnin sín, barnabörn og heimilin sem þær höfðu búið í áratugum saman.

Hópur þessara kvenna hittist einu sinni í viku og prjónar saman í Hvítasunnukirkju Fíladelfía ásamt íslenskum konum. Þeir viðburðir eru hjá mörgum þeirra eina félagslífið sem þær stunda og margar þeirra lýstu því að þær hefðu ekki fengið tækifæri hingað til að skoða nýja heimalandið.  

Rauði krossinn ásamt Reykjavik Excursions, Friðheimum og Úkraínsk-íslenska prjónaklúbbnum, skipulagði ferð þann 31.maí fyrir hóp 20 úkraínskra og íslenskra eldri kvenna. Þær heimsóttu Geysi, Gullfoss, Þingvelli og Friðheima gróðurhús. „Þetta var fyrsta ferð mín út fyrir höfuðborgarsvæðið þrátt fyrir að hafa búið á Íslandi í næstum 2 ár,“ segir ein kvennanna. 

DEILA