Fróðleiksmolar um Ísborgina ÍS 250

Þorsteinn H. Gunnarsson

M/S Ísborg ÍS 250 frá Ísafirði var síðutogari sem breytt var í fragtskip í kringum 1963 með því að færa brúnna aftar og þannig jókst lestarpláss skipsins.  Þeir sem stóðu fyrir þessu voru Guðfinnur Þorbjörnsson, sem átti vélsmiðju Guðfinns og Birgir Þorvaldsson, forstjóri Runtalofna.  Á þessum tíma voru aflagðir gamlir síðutogarar geymdir inn við Klettagarða og þeir félagar renndu hýru auga til þessara togara með það í huga að breyta einum í fragtskip. Guðfinnur var mjög lengi að skoða alla togarana og gerði það mjög vel. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Ísborgin væri það skip sem þeir væru að leita eftir, en hún var heil og óryðguð að kalla. Agnar Hallvarðsson, vélstjóri slóst í hóp með þessum mönnum og seinna keypti Haukur Guðmundsson, skipstjóri sig inn í verkefnið. 

Breytingarnar voru þessar:  Brúin var færð aftar til að auka lestarpláss skipsins og ný Skandia vél var sett í skipið. Ísborgin hafði verið gufuskip og gufuketillinn var tekinn úr skipinu og seldur Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Má segja að andvirði hans hafi dugað fyrir þessum breytingum. Síðan var skipið málað og sjósett.

Í fyrstu urðu forráðamenn Ísborgarinnar að taka hverri þeirri fragt sem bauðst og má segja að þeir hafi verið hálfgerðir skæruliðar á þessum flutningamarkaði. Oftast var flutningurinn út saltfiskur og heim til Íslands salt, ef það var farið í Miðjarðarhafið. Timbur var flutt frá Rússlandi og Póllandi. Síðan voru allskyns flutningar í Hollandi, Englandi, Írlandi, Svíþjóð og Danmörku. 

Áhöfnin var vel skipuð vönum mönnum en Haukur Guðmundsson, frá Gerðum í Garðahreppi, var skipstjóri, og tók hann með sér tvo stýrimenn sem hann þekkti vel. Þeir voru Georg Franklín og Finnbogi Kjeld.

Undirritaður var um skeið háseti á skipinu. 11 manna áhöfn var um borð. Lítið var um nútíma þægindum í skipinu, engin sjálfsstýring og stóð alltaf einn háseti við stýrið og handstýrði. En vegna breytinganna var Ísborgin mjög há að framan ef hún var ólestuð. Og var þá alltaf hafður maður fram á hvalbak á útkikki. Það var til þess gert að sigla ekki niður smábáta. Hvað varð um Ísborgina? Undirritaður fékk spurnir af því að hún hefði verið seld niður í Miðjarðarhaf.

Meðfylgjandi eru myndir sem Þorkell Guðnason tók árið 1981. Þá hafði Ísborgin verið tekin út á rúmsjó og færð til hafnar í Agios Nikolaos á Krít þar sem hún var kyrrsett vegna smygls á fíkniefnum. Það hafði vakið athygli löggæslunnar að þessi óhrjálega fleyta var búin þremur ratsjám og gat siglt á fullri ferð í svartaþoku. Hún var með kúlnagöt á brúargluggum sem munu hafa komið til þegar áhöfnin þráaðist við að hlýða skipunum yfirvalda.

Þorsteinn H. Gunnarsson

DEILA