Framtíðarfortíð: sýning Listasafns Ísafjarðar var opnuð á þjóðhátíðardaginn

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra var við opnun sýningarinnar. Mynd: Áslaug Helgudóttir.

Framtíðarfortíð Listasafns Íslands og Listasafns Ísafjarðar er fyrsta sýningin í röð sýninga sem marka samvinnu Listasafns Íslands og safna á landsbyggðinni. Sýningin var opnuð í Safnahúsinu á Ísafirði á þjóðhátíðardaginn, afmælisdegi Jóns Sigurðssonar sem fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, opnaði sýninguna.

Yfirskrift sýningarinnar Framtíðarfortíð (2023) er fengin úr heiti á myndlistarverki eftir Kristin E. Hrafnsson. Í hluta verksins má lesa setninguna Framundan: endalaus fortíð. Stafagerðin gefur til kynna að hún sé skrifuð af barni sem er nánast við upphaf ævinnar. Að baki: endalaus framtíð er annar hluti þessa sama verks og lokar sýningunni. Sú setning er rituð af gamalli, þjálfaðri hendi sem er að ljúka sinni lífsgöngu. Setningarnar í verkinu eru skrifaðar af raunverulegum manneskjum, hvorri á sínum enda ævinnar. Hver erum við? má spyrja. Erum við þau sömu ævina á enda?  

Sýningin er haldin til að fagna 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar. Valin hafa verið verk úr safneign Listasafns Íslands eftir listamenn sem velta fyrir sér hugtökum eins og sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðar og hvað það þýðir að vera þjóð.

Á sýningunni er meðal annars verk eftir Ólöfu Nordal en hún hefur beint sjónum að íslenskri menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar. Í verkaröðinni Das Experiment Island (2012) dregur hún fram í dagsljósið umfangsmikið lífsýnasafn dr. Jens Pálssonar (1926–2002), prófessors við Háskóla Íslands, sem stundaði mannfræðilegar rannsóknir á lifandi Íslendingum á síðari hluta 20. aldar.  

Með myndbandsverkinu Nýlendan (2003) eftir Ragnar Kjartansson má segja að annar tónn sé sleginn á sýningunni. Þar sést hvernig Íslendingurinn, sem leikinn er af listamanninum sjálfum, er húðstrýktur af dönskum draugfullum nýlenduherra. 

Sýningin stendur til 19. október 2024.

Frá opnun sýningarinnar.

Jóhanna Eva Gunnarsdóttir, sem var fjallkona á Ísafirði og Dagný Heiðdal, listfræðingur Listasafns Íslands.

Myndir: Safnahúsið.

DEILA