Forseti Íslands: þjóðin mun sameinast nýkjörinn forseta

Halla Tómasdóttir, vinir og ættingjar í Skálvík fyrir nokkru.

Halla Tómasdóttir hlaut langflest atkvæði í almennri kosningu ´laugardaginn um nýjan forseta lýðveldisins Íslands. Hlaut hún 73.182 atkvæði og 34,1% greiddra atkvæða. Næst henni kom Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra með 53.980 atkvæði og 25,2% atkvæða. Alls greiddu 215.635 atkvæði og var kjörsókn 80,8%.

Halla fékk flest atkvæði allra tólf frambjóðenda í öllum sex kjördæmum landsins. Í Norðvesturkjördæmi fékk Halla Tómasdóttir 30,1% atkvæða og var það lægsta hlutfall hennar í kjördæmunum sex. Katrín Jakobsdóttir var með 24,3% og munaði 1.063 atkvæðum á þeim. Halla Hrund Logadóttir varð í þriðja sæti í Norðvesturkjördæmi með 23,5% atkvæða.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands sendi í gær Höllu heillaóskir og þar segir m.a. :

„Þú tekur við embætti sem Íslendingum þykir afar vænt um. Þjóðin kaus sín ólíku forsetaefni eins og vera ber en mun núna sameinast um að styðja þig og styrkja til góðra verka. Það sýna fyrri fordæmi og við Eliza verðum alltaf boðin og búin að veita ykkur stuðning á vandasömum vettvangi. Við hjónin vonum sömuleiðis að ykkur muni líða vel hér á Bessastöðum. Hér er gott að búa.“

Halla Tómasdóttir hóf kosningabaráttu sína um páskana með fundum á Vestfjörðum, en hún á ættir að rekja til Meiri Bakka í Skálavík.

DEILA