Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar fjarskiptalækni bráðaþjónustu.
Um er að ræða faglega ráðgjöf bráðalæknis fyrir Neyðarlínu, sjúkraflutninga og aðra veitendur bráðrar heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Landspítalanum var falið að koma þjónustunni á laggirnar og styðja við bakið á þessari nýju þjónustu, og hefur fjarskiptalæknirinn þegar tekið til starfa.
Með verkefninu er tryggt aðgengi að lækni í gegnum fjarskipti til þess að sinna bráðri læknisfræðilegri ráðgjöf. Fjarskiptalæknirinn sinnir 1) læknisfræðilegri stjórnun og ráðgjöf fyrir sjúkraflutninga, 2) bráða-læknisráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýli, 3) fjarheilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur, vettvangsliða og björgunarsveitir, auk 4) faglegrar ráðgjafar við Neyðarlínu, meðal annars til 5) ákvörðunar um notkun sjúkraflugs og þyrlu.
Fjarskiptalæknir er staðsettur í Björgunarmiðstöðinni í Skógahlíð og veitir faglega ráðgjöf fyrir Neyðarlínu, læknisfræðilega stjórnun, ráðgjöf við sjúkraflutninga, ráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýlum, vettvangsliða og björgunarsveitir í bráðum tilfellum. Í upphafi verður þjónusta fjarskiptalæknis í boði frá kl. 8-16 alla virka daga sem er mesti álagstími bráðatilvika, en stefnt er að því til framtíðar að bjóða upp á þjónustuna allan sólarhringinn, allan ársins hring. Tilraunaverkefnið verður metið í lok árs 2024 og ákvörðun tekin um framhaldið.