Fjallvegir: Steinadalsheiði ófær

Hálendiskort Vegagerðarinnar sem tók gildi 24.6. 2024.

Ástand fjallvega á Vestfjörðum er nokkuð gott samkvæmt nýju hálendiskorti frá Vegagerðinni. Steinadalsheiði er lokuð, en hún er milli Kollafjarðar í Strandasýslu og Gilsfjarðar. Þorskafjarðarheiði var í gær tekin úr því að vera sögð ófær og er talin fær en vegurinn grófur. Það var fyrir helgi um 5 metra skafl á heiðinni en hann er talinn farinn nú. Á næstu dögum verður heiðin hefluð.

Þá var áformað að senda jarðýtu á Kollafjarðarheiði í byrjun vikunnar og ástand heiðarinnar var óþekkt í gær.

Hrafnseyrarheiði er fær öllum bílum en grófur vegur. Opið er úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð að Lokinhamradal og er vegurinn sagður vel fær.

Vegurinn út Patreksfjörð að Hvallátrum er ósléttur en fær.

Þá er búið að opna veginn yfir í Ingólfsfjörð úr Norðurfirði í Árneshreppi og þaðan til Ófeigsfjarðar og er hann fær fjórhjóladrifsbílum.

DEILA