Fiskeldi: 80% starfa eru á landsbyggðinni

Fram kemur í skýrslu sem Háskólinn á Akureyri vann í vetur fyrir Matvælaráðuneytið að um 80% starfsmanna sem vinna við fiskeldi búi á landsbyggðinni. Árið 2022 fengu um 700 manns laun frá fiskeldi. Árið 2009 störfuðu einungis um 40 manns við sjókvíaeldi á Íslandi.

Gerð var könnun meðal fiskeldisfyrirtækja og kom þar fram að í 4 fyrirtækjum af 8 voru 100 % starfsmanna með íslenskt ríkisfang. Tvö fyrirtæki eru með um 80% starfsmanna með íslenskt ríkisfang og tvö fyrirtæki þar sem starfmenn með íslenskt ríkisfang eru undir 80%.

Matvælaráðuneytið birti skýrsluna fyrst í gær. Skýrslan fjallar um mannauðsmál í fiskeldi og þar eru greiningar á ýmsum atriðum sem lúta að þeim.

Fram kemur að bjóða þurfi upp á fagskólanám bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi þannig að nemandi sem aflar sér þekkingar á sviði lagareldis allt frá byrjun framhaldsskóla náms eigi greiða leið inn í BS nám í lagareldi á háskólastigi.

Það kom m.a. fram í könnun sem gerð var á meðal forsvarsmanna eldisfyrirtækja að nauðsynlegt sé að koma diplómanáminu sem er boðið upp á við Háskólann á Hólum upp á BS stig auk þess að tengja háskólanám í lagareldi námsbrautum á borð við m.a. lögfræði, viðskiptafræði, líffræði og tækni- og verkfræði svo og líffræði ásamt öðrum greinum sem nú þegar er boðið upp á í háskólum landsins.

Auk þess þurfi að sjá til þess að starfmenn hinna ýmsu eftirlitstofnana og þeirra stofnana sem sjá um leyfisveitingar eigi þess kost að sækja sér endurmenntun og þjálfun eins og þurfa þykir.

Þá segir í skýrslunni að þörf sé á að samræma vinnulag eftirlitstofnana og annarra stofnana sem umsýsla lagareldi og sjá til þess að þær hafi úr nægu fjármagni að spila til að geta sinnt lögbundnum hlutverkum sínum og einnig er nauðsynlegt að veita auknu fé inn í menntakerfið til að auka við námsframboð.

Mannaflsfrek atvinnugrein og ört stækkandi

Í samantekt segir að lagareldi sé ört stækkandi atvinnugrein í landinu. „Greinin er mannaflsfrek og gert er ráð fyrir að þörf fyrir starfmenn aukist mjög á næstu árum. Störfin eru fjölbreytt og krefjast mismunandi
þekkingar og færni.“

Ennfremur segir: „Fjárfesting í menntun og gott framboð á öflugu námi í matvælatengdum greinum eru forsenda fyrir áframhaldandi samkeppnishæfi íslenskrar matvælaframleiðslu.“

Fasteignamat hækkað um 400% fra 2011

Í skýrslunni segir að mikill viðsnúningur hafi orðið í byggðum á sunnanverðum Vestfjörðum með tilkomu fiskeldis:

„Fjöldi fólks í Vesturbyggð hefur lífsviðurværi sitt af atvinnugreininni, meðaltekjur fólks í sveitarfélaginu hafa aukist til muna og þar með einnig tekjur sveitarfélagsins. Með tilkomu fyrirtækja á borð við Arnarlax og Arctic Fish urðu til ný störf sem krefjast ýmis konar sérfræðiþekkingar, bæði, tækni- og háskólamenntunar og þar með hækkar menntunarstig og fleiri eru tilbúnir til að flytja á svæðið. Fasteignamat hefur einnig hækkað umtalsvert (Gunnlaugur Snær Ólafsson, 2023).“

Þá segir að á Vestfjörðum hafi farið fram mikil uppbygging innviða og fasteignamat hafi hækkað um 400% frá árinu 2011.

DEILA