Ferðafélag Ísfirðinga: á slóðum Jóns Sigurðssonar forseta

Gljúfrá – Hrafnseyri – Auðkúla : 1 skór + 1 bíll

Laugardaginn 22. júní

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Jörundur Garðarsson. Ásamt honum munu Ingi Björn Guðnason staðarhaldari á Hrafnseyri og Margrét Hrönn Hallmundsdóttir fornleifafræðingur fræða þátttakendur um ýmislegt sem viðkemur fræðasviði þeirra.
Mæting kl. 9:00 við Bónus á Ísafirði. Farið þaðan á einkabílum.
Keyrt sem leið liggur að Gljúfrá í Arnarfirði þar sem gengið verður upp að bæjarrústum Gljúfrár. Eyðibýlið Gljúfrá tekur nafn af ánni sem fellur í þröngu gljúfri innantil við túnið. Bærinn stendur í nær 80 metra hæð og er sjávargatan nokkuð brött. Við hana stendur Hvíldarsteinn. Þar hvíldu menn sig væri byrðin þung. Jón Sigurðsson kemur mjög við sögu staðarins. Greint frá ýmsum atburðum sem snerta búskaparsögu staðarins en moldin þar geymir minningar af tvennum toga, sárar bæði og sigurglaðar. Frá Gljúfrá er síðan keyrt út á Hrafnseyri þar sem Ingi Björn mun leiða þátttakendur um safnið. Þar gefst fólki einnig kostur á að kaupa sér kaffi og kökur í gömlu uppgerðu bæjarhúsunum. Margrét Hrönn tekur svo við af honum en hún mun ganga með fólki um túnið á Hrafnseyri og segja frá rannsóknunum þar eftir stuttan fyrirlestur. Að lokum verður svo haldið að Auðkúlu þar sem gengið verður um uppgreftrarsvæðið. Margrét mun þá ræða við þátttakendur í ferðinni um þann uppgröft og þær rannsóknir sem þar hafa átt sér stað undanfarin ár. Hér er greinilega ferð sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Tími alls: 6-7 klst.

DEILA