Efla þarf nám í lagareldi

Í skýrslu um lagareldi sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri (SHA) vann fyrir matvælaráðuneytið kemur m.a. fram að efla þurfi nám í lagareldi.

Þar kemur einnig fram að fyrirtæki í lagareldi þurfi að marka sér skýra mannauðsstefnu og
auka þurfi námsframboð þeirra háskóla sem nú þegar bjóða upp á nám í lagareldi á háskólastigi og að kynna þurfi atvinnugreinina á meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla, til þess mætti nýta hugmyndafræði Fiskeldisskóla unga fólksins sem nú þegar er starfræktur.

Lagt er til í skýrslunni að fagráð um nám í lagareldi verði stofnað sem samanstandi af m.a. af fulltrúum fyrirtækja í lagareldi, frá ráðuneytum matvæla og menntamála og hagaðilum.
Að auki kemur fram í skýrslunni að tryggja þurfi nægt fjármagn til að eftirlitsstofnanir og aðrar stofnanir sem koma að lagareldi geti ráðið það starfsfólk sem þarf til að stofnanirnar geti sinnt sínum lögbundnu hlutverkum.

Yfirlit um nám og námsframboð í fiskeldi á Íslandi er að finna í skýrslunni og er það borið saman við nám í Noregi og Færeyjum.

DEILA