Bolafjall: samkomulag innan seilingar

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri og Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs og milli þeirra er Þórdís Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Bolungavíkurkaupstaður, utanríkisráðuneytið og Landhelgisgæslan stefna að því að undirrita samkomulag um næsta nágrenni við útsýnispallinn á Bolafjalli eigi síðan en 10. júní næstkomandi. Miðað er við að Vegagerðin verði aðili að samkomulaginu.

Í viljayfirlýsingu segir að undirritaðir aðilar lýsa því yfir að stefnt sé að þvi að ljúka gerð heildarsamkomulags varðandi framtíðarfyrirkomulag vegar innan öryggissvæðisins á Bolafjalli. Samkomulagið lúti m.a. að:

  • ástandskröfum til vegarins með tilliti til nauðsynlegs aðgengis að ferðamannastaðnum
  • endurbótum á núverandi vegi til að tryggja sem best aðgengi
  • reglubundnu viðhaldi vegarins til framtíðar
  • skiptingu kostnaðar af veghaldinu
  • ábyrgð á notkun vegarins
  • almennri umsjón með veghaldinu og ákvarðanatöku varðandi opnun/lokun  
  • nauðsynlegum takmörkunum tengdum öryggissvæðinu á Bolafjalli

Samhliða lýsa aðilar því yfir að ekki séu gerðar athugasemdir við að Bolungarvíkurkaupstaður hefji þegar undirbúning að gerð bílastæðis á Bolafjalli í samræmi við gildandi deiliskipulag, sem ætlað er fyrir ökutæki ferðamanna og annarra gesta á svæðinu, og að stefnt sé að því að Bolungarvíkurkaupstaður innheimti bílastæðagjöld af notendum.

Bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar hefur rætt viljayfirlýsinguna og fól bæjarstjóra að undirrita hana.

DEILA