Bolafjall: framkvæmdir hefjast við bílastæði

Mynd af Bolafjalli. Ratsjárstöðin blasir við og fyrirhugaður útsýnisstaður. Mynd: Bolungarvik.is

Framkvæmdir eru að hefjast við gerð bílastæða á Bolafjalli. Að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra verður varið um 15 m.kr. í sumar til þess að gera bílastæðin og í framhaldinu er gert ráð fyrir að fara í lagfæringar og viðhald á veginum uppá fjall í samstarfið við Landhelgisgæsluna, sem er eigandi vegarins.

Til þess að afla fjár fyrir framkvæmdunum mun gjaldtaka hefjast frá og með 4. júlí fyrir bílastæðin uppi á Bolafjalli. Bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar hefur samþykkt gjaldskrá fyrir bílastæðin.

Gjaldskráin verður eftirfarandi:

Mótorhjól 500 kr.

Fólksbílar og jeppar 1.000 kr.

Minni rútur ( að 19 manna) 2.000 kr.

stærri rútur skv. samkomulagi.

Í bókun bæjarráðs segir að tilgangurinn með þessari gjaldtöku sé að fá inn fjármagn til að greiða fyrir framkvæmdir á áfangastaðnum Bolafjall. Þetta sé í samræmi við stefnumótun sem unnin var fyrir Bolafjall á síðasta ári, sem gerir ráð fyrir að bílastæðagjald verði sett á til að fjármagna þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að þróa áfram áfangastaðinn Bolafjall.

DEILA