Birta Ósmann Þórhalls­dóttir bæjarlista­maður í sameinuðu sveitarfélagi

Á hátíð­ar­höldum á Bíldudal á 17. júní voru verð­laun veitt fyrsta bæjarlista­manni í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi. Skáldið, mynd­list­ar­konan, útgef­andinn og þýðandinn Birta Ósmann Þórhalls­dóttir hlaut verð­launin að þessu sinni.

Verð­launin eru viður­kenning á góðum störfum í þágu listar og menn­ingar, þeim er ætlað að vekja athygli á verkum lista­mannsins og jafn­framt verka sem hvatning til að koma starfi sínu á fram­færi.

Birta er uppalin í Reykjavík. Hún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og fór þaðan til Mexíkó í teikninám þar sem hún lærði spænsku sem hefur nýst henni í þýðingarstörfum. Úr myndlistinni lá leiðin í meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands, þar sem hún fékk mikla hvatningu og tók líka áfanga í spænskudeild og þýðingarfræði. Birta blandar mikið saman ritlist og myndlist.

Eftir að hafa hrærst í ysnum og þysnum í Reykjavík og Mexíkóborg breytti Birta til og flutti á ættarslóðir á Hvammstanga, enda hefur hún alltaf sótt mikinn innblástur í náttúruna og róna, sem skín í gegn í verkum hennar.

Meðfram því að starfa í ýmsum safnaverkefnum í Húnaþingi stofnaði Birta bókaútgáfuna Skriðu – eða í raun var það Skriða, kötturinn hennar Birtu, sem stofnaði Skriðu bókaútgáfu. Með fyrstu útgáfum má nefna Einsamræður, örsagnasafn eftir Birtu sjálfa, Vínbláar varir, ljóðabók eftir Sigurbjörgu Friðriksdóttur og þýðingu Freyju Eilífar á Mannverunni eftir Maxím Gorkí. Birta kemur að ritstjórn allra bókanna en leggur mikla áherslu á að höfundurinn hafi lokaákvörðunarvald og að honum líði vel með lokaútkomuna. Skriða hefur gefið út að meðaltali þrjár bækur á ári frá stofnun.

Birta elti ástina á Patreksfjörð fyrir um þremur árum og tók bókaútgáfuna Skriðu og köttinn Skriðu með sér. Þar opnaði hún vinnustofu á Eyrargötu og festi kaup á prentvélum úr prentsmiðju til að geta prentað bækurnar hjá sér. Leiðarljós í starfi Skriðu er að allt ferli bókaútgáfunnar sé unnið á staðnum, það er handverkið, prentunin, útgáfuhófið og fleira. Núna í sumar mun hún byrja að prenta fyrstu bækurnar frá A til Ö.

DEILA