Talsvert er um bikblæðingar á vegum nú þegar hlýnað hefur í veðri. Vegfarendur eru beðnir um að aka með gát.
Vegagerðin hefur látið sanda vegi þar sem mikið er um bikblæðingar til að reyna að draga úr þeim. Varað er við ástandinu með skiltum og víða hefur hraði verið lækkaður. Bikblæðingar geta átt sér stað þegar yfirboð á klæðingu á vegum hitnar mikið á sólríkum sumardögum og fer hitinn jafnvel upp í 50-60 gráður. Við þessar aðstæður geta steinar klæðingarinnar sem jafnan eru efst, sokkið ofan í bikið undan umferðarálagi. Bikið verður því eftir í yfirborði klæðingarinnar. Einnig getur steinefnið losnað við þessar aðstæður.
Mikilvægt er að bregðast við á réttum tíma þegar blæðingin er opin og dreifa sandi eða aðeins grófara efni ofan í hana. Því er gott að fá ábendingar um blæðingar sem fyrst þegar vegfarendur verða varir við þær.
Vegagerðin reynir annars að vakta ástandið á vegakerfinu vel þegar aðstæður koma upp sem gætu leitt til blæðinga og lætur þá merkja og dreifa steinefni til að lágmarka skaðann.
Bikblæðingar eru ekki nýjar af nálinni og ekki bundnar við Ísland. Hérlendis varð þeirra fyrst vart í kringum 1980 en eftir því sem umferðin hefur aukist og þyngst hefur hætta á bikblæðingum aukist, þegar áðurnefndar aðstæður hafa myndast.
Bikblæðingar eru svo til engar á malbikuðum vegum, en malbik er mun dýrara slitlag en klæðing, eða nærri fjórum sinnum dýrari.