Besta deildin: Vestri mætir Fram á morgun

Næsti leikur Vestra í Bestu deild karla verður á morgun kl 18 þegar Fram kemur í heimsókn. Leikið verður á Kerecis vellinum á Torfnesi.

Nýi gervigrasvöllurinn var vígður á laugardaginn þegar Valur kom í heimsókn og höfðu Hlíðarendapiltar sigur. Vel var mætt á völlinn og komu um 450 manns, sem er glæsileg mæting. Þetta verður aðeins annar heimaleikur Vestra á keppnistímabilinu þar sem völlurinn var ekki tilbúinn fyrr en núna. Þess í stað verða næstu vikurnar heimaleikir nokkuð þétt og gefur það Vestra aukið tækifæri á að sækja stig. Liðinu var spáð falli úr deildinni en þrátt fyrir skort á heimaleikjum er liðið með 10 stig og er fyrir ofan fallsæti þegar deildakeppnin er hálfnuð, leiknir hafa verið 11 leikir af 22.

Fram er í 7. sæti með 13 stig svo það skilur aðeins einn sigurleikur liðin að.

Vestramennirnir Vla­dimir Tufegdzic og Ibra­hima Baldé verða í leikbanni á morgun vegna gulra spjalda og missa af leiknum.  

Það verða borgarar á grillinu og því tilvalið að skella sér á Kereceisvöllinn með fjölskylduna og hvetja okkar menn til sigurs. 

DEILA