Aukin aðsókn að Menntaskólanum á Ísafirði

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

Innritun fyrir haustönn er senn að ljúka í Menntaskólanum á Ísafirði en innritun nýnema lauk í dag. Í haust munu 69 nýnemar hefja nám við skólann. Áfram er mikil aðsókn í verk-, starfs- og listnám en 43% nýnema munu hefja nám í þeim greinum og er grunnnám málm- og véltæknigreina vinsælasta brautin en alls 19 nemendur munu hefja nám á brautinni í haust. Áfram er opna stúdentsbrautin vinsælust í bóknámi.  

Nemendum utan norðanverðra Vestfjarða er að fjölga í skólanum, bæði nýnemum og eldri nemendum. Af nýnemum koma 15% þeirra utan norðanverðra Vestfjarða sem er aukning frá því sem verið hefur. „Þetta er mikið gleðiefni fyrir okkur sem komum að skólanum. Ekki bara að nemendum sé að fjölga heldur einnig að það sé að fjölga nemendum utan norðanverðra Vestfjarða, t.d. frá suðursvæði Vestfjarða en líka utan Vestfjarða. Í fyrsta sinn í mjög langan tíma er heimavistin fullsetin. Dagskólanemendum mun í heildina fjölga um 17% milli skólaára sem er mikil aukning og styrkir allt skólastarfið okkar að hafa fleiri nemendur.  Við göngum full tilhlökkunar inn i nýtt skólaár„  segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Innritun í fjarnám stendur enn yfir og sömuleiðis eru laus pláss á nokkrum brautum í dagskóla s.s. í húsasmíði og vélstjórn A. Hægt er að hafa samband í gegnum netfang  fjarnam@misa.is þegar skrifstofa skólans opnar að nýju eftir verslunarmannahelgi til að innrita sig í skólann.

DEILA