Laugardaginn 8. júní kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Auðar Lóu Guðnadóttur í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið Í lausu lofti og stendur til sunnudagsins 7. júlí. Listakonan verður viðstödd opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall.
Í lausu lofti er innsetning nýrra verka eftir Auði Lóu sem fjalla um það að tilheyra og tilheyra ekki. Verkin fjalla um tilfinningalíf páfagauka, græna parakeet fugla í almenningsgörðum í London, Orkídeur, birkitré og allt þess á milli.
Auður Lóa (f. 1993) býr og starfar í Reykjavík, en hún útskrifaðist af myndlistarsviði Listaháskóla Íslands árið 2015. Hún hefur sýnt víða og hlaut árið 2018 hvatningarverðlaun Myndlistarráðs fyrir sýninguna Díana, að eilífu. Vorið 2021 opnaði hún sína fyrstu stóru einkasýningu, Já / Nei, í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Auður Lóa hefur einbeitt sér að skúlptúrum úr máluðum pappamassa en sá grófi og óstýriláti efniviður ljáir verkum hennar kostulegan og sérstæðan blæ. Með notkun þessa að því er virðist léttvæga efnis nær hún fram óvæntri dýpt og býður upp á óhefðbundið sjónarhorn á viðfangsefni sín.
Sýning Auðar Lóu í Úthverfu er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 1. – 16. júní 2024