Arnarlax fær rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi

Matvælastofnun hefur gefið út rekstrarleyfi til Arnarlax fyrir 10.000 tonnum af ófrjóum laxi. Gildir leyfið til 13.6. 2040.

Arnarlax sótti um rekstrarleyfi fyrir 10.000 tonnum af frjóum og ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi og var umsókn móttekin 21. maí 2019. Matvælastofnun auglýsti tillögu að rekstrarleyfi á vef stofnunarinnar 29. febrúar 2024 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 28. mars 2024. Engar kærur bárust til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Burðarþolsmat Ísafjarðardjúps er metið 30.000 tonn og heimilar áhættumat erfðablöndunar 12.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Djúpinu. Matvælastofnun hefur þegar úthlutað 12.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi til Háafells og Arctic Fish og fær Arnarlax því einungis leyfi fyrir ófrjóum laxi.

Fyrirhugað eldi fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá útgáfu leyfisins sem var 14.6. 2024.

Heimilt verður að vera með kvíar á þremur svæðum, Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð.

Sett eru nokkur skilyrði í leyfinu. Vegna nálægðar við eldi annarra fyrirtækja verður óheimilt að setja út seiði nema fyrir liggi samstarfssamningur við Hábrún og Arctic Fish sem tryggi samræmdar forvarnir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum. Jaðar eldiskvínna skulu ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeisla en 50 metra í Drangshlíð og Eyjahlíð og við Óshlíð eru mörkin 200 metrar.

Arnarlax vildi að gefið yrði svigrúm til þess að breyta skilyrðinu um mörk hvíts ljósgeisla í ljósi mótvægisaðgerða sem leiðbeiningar IALA gera ráð fyrir að unnt verði að grípa til til þess að tryggja örugga för. Matvælastofnun bar þetta undir Vegagerðina sem staðfesti að þessi möguleiki væri fyrir hendi en lagðist gegn því heimila hann og sagði í svari sínu: „Vegagerðin lítur svo á að slíkar undantekningar séu ekki réttlætanlegar nema aðstæður séu með þeim hætti að ekki sé hægt að tryggja örugga leið með öðrum hætti.“ Matvælastofnun svaraði Arnarlax á þann hátt að komi til þess að áhættumat um siglingaöryggi verði breytt m.t.t. mótvægisaðgerða hafi Matvælastofnun heimild til þess að endurskoða útgefin rekstrarleyfi.

Athugasemdir Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu

Landhelgisgæslan gerði athugasemd við eldissvæðin Eyjahlíð og Óshlíð og taldi eldið á þessum stöðum hafa í för með sér hættu fyrir öryggi sjófarenda og vísaði gæslan í áhættumat siglingaöryggis. „Þess vegna er varasamt að veita leyfi fyrir starfsemi á umræddum svæðum. Þess vegna telur Landhelgisgæslan afar mikilvægt að Matvælastofnun endurskoði tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arnarlax ehf. í Ísafjarðardjúpi með öryggi sjófaranda í huga.“ sagði í athugasemd Landhelgisgæslunnar.

Í svari Matvælastofnunar við athugasemdinni segir að í tillögu að rekstrarleyfi Arnarlax fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi séu sett skilyrði sem byggja á áhættumati siglingaöryggis fyrir þau svæði sem leyfið tekur til og með vísan til þessara skilyrða er siglingaröryggi fyrir umrædd svæði tryggt að mati Matvælastofnunar enda er rekstrarleyfishafa óheimilt að staðsetja eldissvæði innan þessara staðsetninga.

Í athugasemd Samgöngustofu er gengið enn lengra en Landhelgisgæslan gerði og fór stofnunin fram á að eldi yrði ekki leyft á svæðunum Óshlíð og Eyjahlíð, „Því fari stofnunin fram á það að umsókn Arnarlax um rekstrarleyfi á svæðunum verði hafnað.“

Matvælastofnun varð ekki við kröfu Samgöngustofu og segist líta svo á að „þar sem ekki sé útilokað, út frá leiðbeiningum IALA, að grípa til mótvægisaðgerða verði hægt að tryggja siglingaöryggi, sé ekki hægt að hafna útgáfu rekstarleyfis fyrir þau svæði rekstrarleyfisins sem eru í hvítum ljósgeira. Rekstrarleyfishafi hefur þegar hafið í samvinnu við verkfræðistofuna EFLU að vinna að útfærslu siglingaöryggis m.t.t. mótvægisaðgerða á svæðinu eins og fram kemur í athugasemdum Björns Hembre forstjóra Arnalax.“

Hvorug stofnunin gerði athugasemd við eldissvæðið við Drangshlíð.

DEILA