Arctic Fish kærir skerðingu á hámarkslífmassa

Frá Sandeyri.

Arctic Fish hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál þá ákvörðun Matvælastofnunar að heimila fyrirtækinu aðeins að hafa 8.000 tonna lífmassa í sjó af eldislaxi í Ísafjarðardjúpi og vill það að leyfið hljóði upp á 10.100 tonna lífmassa sem sé nauðsynlegt til þess að skila 8.000 tonna framleiðslu.

Til vara er farið fram á að leyfið hljóði upp á 10.100 tonna lífmassa með því viðbótarskilyrði að framleiðslan fari ekki fram úr 8.000 tonnum.

Forsagan er að í maí 2019 sótti Arctic Fish um leyfi fyrir 8.000 tonna framleiðslu og hámarkslífmassa í samræmi við það. Var matsáætlun og umhverfismat miðað við þessar forsendur og Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við það.

Þessar tölur byggjast á því að framleiðslan sé 80% af þeim hámarkslífmassa sem má hafa í sjó. Til þess að framleiða 8.000 tonn af eldislaxi þurfi að ala lífmassa sem er 10.100 tonn m.a. vegna ákvæða um hvíldartíma svæða milli eldiskynslóða. Þegar umsóknin var lögð fram árið 2019 voru leyfin gefin út með ákvæðum um framleiðslumagn en nú kveða leyfin á um lífmassa. Matvælastofnun var falið að endurskoða gildandi leyfi þannig að tilgreina lífmassa en þó skyldi framleiðslumagnið haldast óbreytt. Telur Arctic Fish að 10.100 tonna lífmassa þurfi til þess að framleiða 8.000 tonn.

Fyrirtækið birtir í kæru sinni upplýsingar um nýtingu á leyfum sínum í Patreksfirði/Tálknafirði og Dýrafirði yfir fimm ára tímabil 2020 til 2024. Reyndist framleiðslan vera 54% að meðaltali á fyrra leyfinu og 51% í Dýrafirði af lífmassanum. Skýringin sé fyrst og fremst að útsetningartími seiða er stuttur og hvíldir á svæðum verða langar. Þá sé vöxtur lítill yfir vetrarmánuðina og þá lækkar lífmassinn í sjó þegar fiski er slátrað.

Bent er á það að Hafrannsóknarstofnun miði við 80% hlutfall framleiðslu af lífmassa í gildandi áhættumati erfðablöndunar.

Matvælastofnun ákvað að miða við að sama magn af lífmassa þyrfti og tilgreint er sem heimild til framleiðslu, þ.e. að hlutfallið þarna á milli væri 1:1 en ekki 0,8:1. Vísaði Mast til skýrslu Ríkisendurskoðunar frá janúar 2023 þar sem því er haldið fram að hlutfallið milli lífmassa og framleiðslu væri misjafnar milli rekstraraðila í sjókvíaeldi eða allt frá 0,9 til 1,3 á móti 1.

Þessu mótmælir Arctic Fish og segir að hvorki Ríkisendurskoðun né Matvælastofnun hafi lagt fram nein gögn til stuðnings þessum tölum.

Kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og er úrskurðar að vænta á næstu mánuðum.

DEILA