Gísli Ólafsson, alþm. (P) hélt því fram úr ræðustól á Alþingi í gær að eigendur Arnarlax hefðu borgað sér tugi milljarða króna í arð á hverju ári. Þetta sætir tíðindum þar sem Arnarlax hefur aldrei greitt út arð síðan félagið var stofnað árið 2009. Fram kemur i ársskýrslu Arnarlax fyrir síðasta ár að ekki verði greiddur arður fyrir það ár þrátt fyrir 1,5 milljarðs króna hagnað þar sem stefna fyrirtækisins væri að byggja það upp og auka þannig virði hlutabréfa þess. Arðgreiðslur væru seinni tíma viðfangsefni. Kjartan Ólafsson, stjórnarmaður í Arnarlax staðfestir að aldrei hafi verið greiddur arður.
Í ræðu sinni vísaði Gísli fyrst til frétta um að stærsti hluthafi Arnarlax hefði greitt sér 48 milljarða króna í arð og sagði síðar í ræðunni að Arnarlax hefði borgað sér tugi miljarða króna í arð á ári.
Ekki kom fram hvaða fréttir þingmaðurinn var að vísa til, en í gær birtist á heimildin.is frétt með fyrirsögninni: Eigandi Arnarlax greiðir út 48 milljarða króna arð. Verður að telja líklegt að átt sé við þá frétt.
Við athugun á þessu máli kemur í ljós að átt er við norska fyrirtækið SalMar, sem á um 52% í Arnarlax. Hluthafar SalMar ákváðu að greiða 3,7 milljarða norskra króna í arð. Það var sem sé ekkert greitt í arð hjá Arnarlax. En alþingismaðurinn var ekki í vafa um hver fréttin var og rauk upp í ræðustól í geðshræringu yfir „hömlulausum gróða örfárra einstaklinga á kostnað samfélagsins.“
Heimildin (áður Stundin) hefur áður leikið þennan leik að segja fréttir af stórum eldisfyrirtækjum í Noregi og setja þær fram eins og um fréttir af íslenskum fyrirtækjum sé að ræða þar sem þau eru að hluta til í eigu norskra fyrirtækja. Sérstaklega er lagt upp úr því að vekja hneykslan og setja laxeldið hér innanlands í slæmt ljós. Þarna er einmitt verið að gefa í skyn óverðskuldaðan ofsagróða fárra og spila á tilfinningar.
Allt rangt
En allur þessi málatilbúnaður er rangur. Eigendur Arnarlax eru ekki að fá ofsagróða upp í hendurnar í gegnum arðgreiðslur. Þeir hafa þvert á móti ákveðið að halda áfram að byggja fyrirtækið upp og styrkja efnahag þess með því að láta ágóðann vera inn í fyrirtækinu. Það á við um alla hluthafa Arnarlax, enginn þeirra fær greiddan arð og þeir hafa allir, þar með talið SalMar samþykkt þetta. Væntanlega kemur að því, ef áfram gengur vel, að eigendur fái arð af eign sinni en það bíður betri tíma.
Það eru eigendur risafyrirtækisins SalMar í Noregi, næst stærsta framleiðanda eldislax í heiminum, sem fá greiddan arð af starfsemi þess fyrirtækis. Sú greiðsla kemur frá SalMar en ekki Arnarlax. Framleiðsla SalMar í Noregi var um 234 þúsund tonn á síðasta ári og tekjurnar um 360 milljarðar króna. Tekjur Arnarlax voru í fyrra um 25 milljarðar króna eða um 0,6% af tekjum SalMar. Hagnaður Arnarlax var um 1,5 milljarðar króna fyrir skatta. Það er ósannindi hjá þingmanninum að „Arnarlax hefði borgað sér tugi milljarða króna á ári í arð“, ósannindi sem Heimildin hefur ýtt af stað með óvandaðri ófrægingarfrétt um laxeldi.
Það er mikið áróðursstríð í gangi hér á landi gegn laxeldi í sjó og það er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af fréttaflutningnum. Það er of mikið af villandi og röngum fréttum í gangi til þess að það sé tilviljun ein.
-k
Fréttin á vef Heimildarinnar í gær.