Alþingi: stjórnarandstaðan vill ekki eldisgjald

Bíldudalur. Um Bíldudalshöfn fer mikið magn af eldisfiski sem landað er þar til slátrunar.

Nefndarálit stjórnarandstöðunnar um breytingar á hafnalögum er komið fram. Leggst hún gegn því að tekið verði upp sérstakt eldisgjald af lönduðum eldisfiski. Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar segir í áliti sínu að betur fari á því að búa betur um þann tekjustofn sem aflagjald hefur verið, þar sem það tekur mið af verðmæti þeirrar vöru sem um hafnirnar fer.

Í álitinu segir minnihlutinn:

„Það var hins vegar ákvörðun ráðherra að leggja til nýjan tekjustofn, svokallað eldisgjald, á umskipun, lestun og losun afla úr sjókvíaeldi í höfnum landsins. Við útfærslu eldisgjalds leggur ráðherra hins vegar til þá leið að velta því yfir á hafnirnar sjálfar að komast til botns í því hvert gjaldið geti verið, frekar en að skilgreina eðlilegan ramma utan um gjaldið líkt og gert er með aflagjaldið. Í stað þess að leysa úr þessum hnút beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að leysa úr þeim álitamálum einhvern tímann seinna, þótt þar sé um að ræða sömu álitamálin og hefði átt að leysa í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.“

 Minni hlutinn tekur undir þær athugasemdir sem fram koma í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hafnasambandsins um málið og við umfjöllun í nefndinni og segir að eðlilegt væri að hafnir gætu lagt aflagjald, sem er hlutfallsgjald af verðmæti afla, á eldisfisk rétt eins og annan sjávarafla sem um hafnirnar fer, enda er eldisfiski landað með sama hætti og uppsjávarfiski. 

Undir álitið rita þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar.

Frumvarpið er komið til annarrar umræðu og er á dagskrá þingfundar í dag.

DEILA