Alþingi: eldisgjald verði lögfest

Lagt er til að hafnasjóðu verði heimilt að innheimta sérstakt eldisgjald af eldisfiski.

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur afgreitt úr nefndinni frumvarp innviðaráðherra um breytingu á hafnalögum og leggur til að samþykkt verði að taka upp nýtt gjald til hafnasjóða, svonefnt eldisgjald. Telur meirihlutinn ekki tilefni til þess að breyta tillögu ráðherra en  beinir því til ráðherra að taka til athugunar hvort unnt sé að útfæra ákvæði um eldisgjald þannig að gjaldstofn miðist við verðmæti eldisfisks, áþekkt því sem mælt er fyrir um í e-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr hafnalaga um aflagjald.

Hafnasamband sveitarfélaga og samband íslenskra sveitarfélaga vildu að núverandi lagaákvæði um aflagjald yrði rýmkað þannig að það nái einnig til eldisfisks. Ráðuneytið lagðist gegn því og sagði í umsögn til nefndarinnar að reynsla síðustu ára hafi sýnt að þörf væri á sérstöku ákvæði um gjaldtöku af eldisfiski.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur vildu að eldisgjald miðist við aflaverðmæti þeirra sjávarafurða sem umskipað er, lestaðar eða losaðar í höfnum og að það yrði skilgreint sem sérstakt hlutfall af aflaverðmæti líikt og gert er varðandi aflagjald af öðrum sjávarafurðum. Lögðu sveitarfélögin til að eldisgjaldið yrði minnst 0,7% og mest 3,0% af heildaraflaverðmæti miðað við meðaltal alþjólegs markaðsverðs á Atlandshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram.

Ráðuneytið lagðist gegn þeirri tillögu og taldi mikilvægt að þjónustuveitandinn reikni út þann gjaldagrunn sem gjaldið er byggt á. „Er það eðli þjónustugjalda að þeim er ætla að standa straum af kostnaði við veitingu þeirrar þjónustu sem innheimt er fyrir.“

Að meirihlutaálitinu standa þingmenn stjórnarflokkanna þriggja. Formaður nefndarinnar er Bjanri Jónsson (V) og framsögumaður meirihlutans verður Halla Signý Kristjánsdóttir (B), bæði þingmenn Norðvesturkjördæmis.

Álit fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna er ekki komið fram. Þingmálið er til annarrar umræðu á þingfundi í dag.

DEILA