Aflamark Byggðastofnunar – umsýsla stofnunarinnar góð að mati Ríkisendurskoðunar

Tindur ÍS veiðir sértæka byggðakvótann á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á ráðstöfun byggðakvóta sem nú er komin út kemur fram að aflamark Byggðastofnunar sé minna umdeilt en almenni byggðakvótinn og úthlutun þess feli í sér meiri fyrirsjáanleika hvað varðar úthlutun til  byggðarlaga.

Úttektin var gerð að beiðni Alþingis sem samþykkti í maí 2023 að óska eftir því við Ríkisendurskoðanda að hann gerði stjórnsýsluúttekt á ráðstöfun almenns byggðakvóta og sértæks byggðakvóta þ.e. aflamarks Byggðastofnunar. Í skýrslubeiðni Alþingis segir einnig: „Jafnframt verði athugað hvort framkvæmdin stuðli að jákvæðri byggðaþróun, hvort framkvæmdin samrýmist góðum stjórnsýsluháttum, hvort jafnræðis sé gætt við úthlutun byggðakvóta og hvort framkvæmdin samrýmist þeim markmiðum sem stefnt var að með setningu þeirra lagaákvæða sem úthlutun byggðakvóta byggir á.“

Ábending Ríkisendurskoðunar

Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að Aflamark Byggðastofnunar sé minna umdeilt en almenni byggðakvótinn og úthlutun þess feli í sér meiri fyrirsjáanleika hvað varðar úthlutun til  byggðarlaga og ætlaða þýðingu fyrir byggðafestu. Þá metur Ríkisendurskoðun umsýslu Byggðastofnunar góða hvað varðar jafnræði og stjórnsýslu.

Í tilkynningu Byggðastofnunar um skýrsluna segir að í henni sé ábending til Byggðastofnunar og Fiskistofu um að verklagsreglur um byggðakvóta þurfi að endurspegla framkvæmd úthlutunar og eftirlit með nánari hætti. Byggðastofnun hefur þegar brugðist við þessari ábendingu og uppfært verklagsreglur stofnunarinnar í samræmi við framkomnar ábendingar þannig að þær endurspegli ítarlegar framkvæmd úthlutunar og eftirlits stofnunarinnar varðandi Aflamark Byggðastofnunar og voru þær samþykktar af stjórn stofnunarinnar þann 6. júní sl. Jafnframt því mun stofnunin fela innri endurskoðun að yfirfara verkferla og stjórnsýslu vegna Aflamarks Byggðastofnunar í sinni reglubundnu úttekt á starfsemi stofnunarinnar.  Byggðastofnun tekur fram að ráðstöfun stofnunarinnar á sértækum byggðakvóta hefur ávallt verið í samræmi við lög, reglugerð og gildandi verklagsreglur eins og m.a. þeir stjórnsýsluúrskurðir og dómar sem fallið hafa vegna verkefnisins bera með sér.  

Mat Ríkisendurskoðunar er að Byggðastofnun beri að geta í skýringum með ársreikningi um magn og verðmæti þess aflamarks sem stofnunin úthlutar hverju sinni og er þeim tilmælum beint til Byggðastofnunar að gera úrbætur á framsetningu ársreikninga hvað þetta varðar.  Það mun stofnunin gera en rétt er að  geta þess að magnið var tiltekið í skýringum með ársreikningi stofnunarinnar fyrir árið 2023 án þess að lagt hafi verið mat á verðmæti þess.

DEILA