Viðurkenningar Héraðssambands Vestfirðinga

Á ársþingi HSV sem haldið var fyrr í þessum mánuði voru þremur einstaklingum veittar heiðursviðurkenningar HSV. 

Tvö gullmerki og eitt silfurmerki voru veitt einstaklingum sem að hafa unnið ötult starf í þágu íþróttahreyfingarinnar

Gullmerki hlutu Þórunn Pálsdóttir sem hefur átt langa samleið með Skíðafélagi Ísfirðinga og hefur hún komið víða við í starfi félagsins. Hún byrjaði sem iðkandi í alpagreinum og keppti fyrir hönd félagsins á fjölmörgum mótum með góðum árangri. Síðar kom hún sterk inn í starf félagsins sem foreldri og fór meðal annars í æfinga- og keppnisferðir sem farastjóri. Einnig fékk gullmerki Jóhanna Oddsdóttir sem hefur verið viðloðandi skíðaíþróttina allt frá blautu barnsbeini enda fædd inn í eina þekktustu skíðaætt Ísfirðinga. Grænagarðsættina. Hún hefur um áratugaskeið verið eina af driffjöðrunum í starfi Skíðafélags Ísfirðinga.

Silfurmerki HSV fékk Leifur Bremnes sem hefur unnið gífurlega mikið sjálfboðaliðastarf hjá skotíþróttafélagi Ísafjarðar. Núna þegar verið er að byggja upp aðstöðu hefur Leifur notað allan sinn frítíma í að vinna að því verkefni.

DEILA