Viðtalið: Viktoría Rán Ólafsdóttir

Svanshóll er landnámsjörð og lögbýli í Bjarnarfirði á Ströndum og er staðsett rétt fyrir norðan Steingrímsfjörð. Jörðin hefur verið í samfelldri byggð frá árinu 910 eða í yfir 11 aldir, en það var Svanur galdramaður sem upphaflega reisti þar sitt höfuðból (móðurbróðir Hallgerðar langbrókar).

Í nokkuð mörg ár hefur Svanshólsfjölskyldan í sameiningu unnið að ýmiss konar uppbygginu og áhugamálum, sem eru kannski misgáfuleg. Pabbi tók stefnuna á að stækka íbúðarhúsið sem er á þremur hæðum og umbreyta fjósinu í 2 hæðir og ris. Í kjölfarið keyptum við Finnur bróðir og makar okkar, Anna Björg Þórarinsdóttir og Hlynur Gunnarsson, ættaróðalið Svanshól af foreldrum okkar, Ólafi Ingimundarsyni og Hallfríði F. Sigurðardóttur. Þar rekum við nú ferðaþjónustuna Svanshóll Ströndum ehf.

Ferðaþjónustan á Svanshóli (https://www.svansholl.is)

Á Svanshóli eru 2 aðskilin íbúðarhús og í því stærra er jafnframt boðið upp á íbúðagistingu í þremur nýjum funheitum og huggulegum íbúðum, en hver og ein þeirra er með sér eldhús og baðherbergi. Þarna hefur pabbi nostrað við hvern krók og kima sem gestir kunna svo sannalega að meta. Íbúðirnar eru hitaðar með jarðvarma úr eigin borholu, en stuttan spöl fyrir ofan húsið er 39°C heit óspillt náttúrlaug sem gestir geta notið í frið og ró.

Kirsuberjaræktin

Eitt af þessum misgáfulegum ævintýrum okkar er kirsuberjaræktin á Svanshóli. Finnur keypti refahús til niðurrifs sem hann ætlaði að nota fyrir vélaskemmu, en áður en sá draumur varð að veruleika þá tók sú hugmynd stefnubreytingu og við fylltum húsið af ávaxtatrjám. Kirsuberjarækt krefst talsverðrar yfirsetu og mjög græna fingur. Gestum þótti þessar tilraunir okkar áhugaverðar og áður en vissi vorum við farin að fá fjölmargar daglegar heimsóknir eða allt að hundrað manns á dag beint af götunni. Mesta kirsuberja uppskeran er í lok júní og byrjun júlí, en svo eru epli, perur, plómur og ber á hinum ýmsu tímabilum, en í heildina hýsum við um 45 ávaxtatré. Best er að gróðurhúsið lengir sumrin til muna. Þarna byrjum við að moldvarpast í lok mars og njótum blóma, grænmetis og ávaxta langt fram í septemberlok. Veðrið er alltaf gott innan um gróðurinn, sama hvernig sem hann viðrar úti fyrir.

Vetrarferðaþjónustan

Margir þekkja ferðaþjónustuna Hótel Laugarhól sem er hérna við hliðina á okkur, þótt færri hafa komið á Svanshól. Í einhverju hugrekkiskastinu tókum við Hlynur við Hótel Laugarhóli í janúar 2021 eða í miðjum covid-faraldri.  Markmiðið okkar er að efla heilsársferðaþjónustu, en í sameiningu hefur Hótel Laugarhóll og Svanshóll að verið að gera tilraunir með að halda úti hópaopnum fyrir heilsutengda hópa. Mest koma hópar til að fara á gönguskíði, en við höfum verið að troða skíðabrautir fyrir þá sem þess óska. Annars er sama hvert er litið, þá er hér óspillt náttúra í seilingarfjarlægð og auðvelt að njóta allan ársins hring.

Bjarnarfjörður er veðursæll og stundum snjóasamur, en vetrarríkið hér er mikið og ef lognið fer eitthvað að flýta sér þá leitum við bara skjóls í skóginum eða í heitu laugunum sem eru víða í firðinum. Á Laugarhóli er líka ein af elstu sundlaugum landsins, Gvendarlaug, sem er 30-34°C heit almennings sundlaug sem stendur við hliðina á heitri náttúrulaug og er algjör perla. Það má nú eiginlega segja að þessi laug hafi alið mig upp, þar sem maður dvaldi þar heilu dagana sem barn.

Hver er Viktoría Rán ?

Fyrstu árin mín ólst ég upp á Hornafirði. Síðan í Noregi og á Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Eftir að hafa stundað háskólanám í Englandi, Bandaríkjunum og Noregi, þá sneri ég heim og bý nú á Hólmavík með annan fótinn í Bjarnarfirði.

Helsta menntunin mín er BSc í alþjóðaviðskiptafræðum frá Englandi og Bandaríkjunum, en síðan skrapp ég aftur til Noregs árin 2015-2016 og bætti við mig meistaragráðu í hótelstjórnun og ferðaþjónustu frá Háskólanum í Stavanger.  Í framhaldinu starfaði ég sem kaupfélagsstjóri á erfiðum tímum og sneri mér í framhaldinu að ferðaþjónustunni. Þetta er búið að vera mikið lærdómsferli og mikið að gera, líka á veturna. Maður er í þessu af hugsjóninni og ánægjunni, en það er mikils virði að sjá ferðatímabilið lengjast og samfélagið eflast samhliða.

Ég sit í stjórn Skíðafélags Strandamanna, Orkubús Vestfjarða, Fjárfestingarfélaginu Hvetjanda, Fasteignafélags Hornsteina, Laugarhóli og Svanshóli, ásamt því að stýra Remote Iceland. Svo er ég með putana í öðrum verkefnum. Hlynur minn er á Strandveiðum og fjölskyldan mín tengd Galdri brugghúsi og fleira.

Áhugamálin mín eru ferðalög, skíðagangan og fjölskyldan, en við eigum 5 börn, 4 uppkomin og einn sprækan íþróttastrák sem er nýorðinn 13 ára. Eiginlega er það full vinna að sinna hans áhugamálum. Annars er ég líka með græna fingur og er mikil blómakerling, rækta krydd og grænmeti fyrir ferðaþjónustuna. Bestu dagarnir eru þegar maður fær tækifæri til að sýna ferðamönnum í hverju maður er að stússast og leyfa þeim að upplifa sveitasæluna með manni. 

Svanshóll.

DEILA