Viðtal vikunnar: Finnbogi Sveinbjörnsson

Finnbogi og Fjóla við Dynjanda.

Finnbogi Sveinbjörnssom, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga (Verk Vest) er fæddur 25. febrúar 1966 og ólst upp í Bolungavík.

Eftir grunnskóla stundaði ég nám á verslunar- og hagfræðibraut við Menntaskólann á Ísafirði og lauk þaðan stúdentsprófi 1986 og flugradíóréttindum 1985. Starfaði við AFIS þjónusta í flugtuninum á Ísafjarðarflugvelli 1985 – 1998 samhliða stöfum hjá Iclandair og síðar Flugfélagi Íslands til 2007 þegar ég hlaut kosningu til formennsku hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Í störfum mínum sem formaður hef ég sótt mér viðbótarmenntun hjá Endurmenntun HÍ á sviði Fjármála, reksturs og verkefnastjórnunar auk þessa að ljúka PMD námi hjá HR.

Hvað annað félagsstarf áhrærir þá var ég virkur bæði í Lúðrasveit Tónlistaskóla Ísafjarðar spilandi á trompet og í Karlakórnum Erni syngjandi í fyrsta bassa. Því miður hefur ekki alltaf verið tími til að sinna þessum mjög svo gefandi félagsmálum og hef ég verið frekar óvirkur undanfarin ár. Heima við reyni ég að glamra aðeins á píanó og stundum gríp ég líka í nikkuna mér til ánægju en jafnvel öðrum til ama. Þá má nefna að ég var formaður sóknarnefndar Hnífsdalssóknar um árabil en er nú varamaður í sóknarnefnd Ísafjarðarprestakalls.  

Þó svo ég hafi aldrei verið helsýktur af fótboltabakteríunni þá sparkaði ég bolta sem smápúki í Víkinni, lét það duga. Hinsvegar er ég alveg forfallin Púllari frá því ég var smástrákur og fer gjörsamlega hamförum fyrir framan sjónvarpið þegar illa gengur hjá mínum mönnum í Liverpool. Stundum svo að fjölskyldunni þykir nóg um lætin í kallinum. En það er með boltann eins og annað í lífinu þar skiptast á skin og skúrir þó mér hafi þótt helst til miklar skúrir yfir mínum mönnum undir lok tímabils. En hjartað mun alltaf slá með Liverpool í enska boltanum og mestu ánægjustundirnar eru þegar Mancester liðin tapa fyrir Liverpool, eða tapa bara yfir höfuð! YNWA!

Réttindamál á vinnumarkaði hafa lengi verið þáttur af mínu lífi enda hef ég sinnt fjölbreyttum verkamannstörfum, svo sem við fiskvinnslu, ræstingar, byggingarvinnu og þjónustustörf. Afskipti mín af verkalýðsmálum hófust hjá Verslunarmannafélagi Ísafjarðar og var ég varaformaður þess félags 1997 þangað til félagið sameinast Verk Vest 2002. Áður en ég var kosinn til formennsku í Verk Vest var ég ritari félagins frá 2002-2007.  Þá átti ég sæti í varastjórn Lífeyrissjóðs Vestfiðinga frá 1999 – 2010 þegar ég tók sæti í stjórn sjóðsins og var formaður stjórnar sjóðsins til desember 2014 þegar sjóðurinn sameinast Gildi lífeyrissjóði.

Starf formanns stéttarfélags er gríðarlega fjölbreytt og má segja að enginn dagur sé eins. Starfið kallar á mikil ferðalög og fjarverur enda félagssvæði Verk Vest allir Vestfirðir. Að auki sinni ég ýmsum trúnaðar störfum fyrir verkalýðshreifinguna sem kerfjast líka töluverðrar ferlaga og fjarveru. Þar má nefna Miðstjórn ASÍ, stjórn Fræðslusjóðs atvinnulífsins, stjórnarfomennska í Sveitamennt ásamt því að halda utan um rekstur Orlofsbyggar í Flókalundi. Reyndar má segja að eitt gott hafi komið út úr Covid og það er fjarfundar menningin sem er gríðarlega tímasparandi fyrirkomulag, sérstaklega fyrir okkur á landsbyggðinni. Í störfum mínum fyrir verkalýðshreifinguna sat ég einnig í stjórn samnorrænna verkalýðssamtaka starfsfólks í hótel-, veitinga- og þjónustugreinum NU-HRCT frá 2011 til 2014. Að vinna með félögum okkar á norðurlöndunum var bæði mjög skemmtileg og fræðandi reynsla.

En nóg um þessi mál, ég er í fjar/sambúð með Fjólu Pétursdóttur lögmanni og höfum við haldið tvö heimili frá frá því leiðir okkar lágu saman í byrjun árs 2010, annað í Hnífsdal en hitt í Reykjavík hvar Fjóla vinnur við lögfræðiráðgjöf. Börnin mín eru fjögur á aldrinum 25 – 33 ára, þrír strákar og ein stelpa en Fjóla á eina dóttur. Síðan er einn lítill afastrákur sem er að verða 3ja ára og í sumar er væntanleg lítil afastelpa. Saman eigum við Fjóla hundinn Tobba sem býr að mestu hjá mér í Hnífsdal.

Okkur Fjólu þykir mjög gaman að ferðast, bæði innanlands og utan. Í seinni tíð enda innanlandaferðir okkar gjarnan upp við Hvítársíðu í Borgarfirðnum hvar við reynum að leggja okkar af mörkum við ræktun og uppgræðslu á hálfgerðum jökulmel í landi Fjárhústungu. Við erum nokkuð dugleg að sinna útvist og höfum líka staðið í mikilli ræktun í garðinum okkar í Hnífsdal. Utanlandsferðir okkar enda eins og hjá öðrum sólþyrstum Íslendingum einhversstaðar þar sem sólin skín meira en á Íslandi.

Þar fyrir utan líður mér alltaf best einhversstaðar út í nátúrunni, helst hér á Vestfjörðum leitandi að rjúpu og veiða þegar það má. Ég er samt ekki með ódrepandi veiðidellu hvorki í skotveiði né stangveiði en hef mikla ánægju af hvoru tveggja. Að veiða eitthvað er ekki stóra málið hjá mér heldur að vera í góðra vina hópi og njóta þess að elda góðan mat og jafnvel smakka góða handverks bjóra.  En svona í blálokin finnst mér nauðsynlegt að minnast á hóp vaskra pilta sem kalla sig Vestfirska Gleðipinna (VG). Piltarnir áttu samleið í Menntaskólanum Ísafirði á sínum tíma en hafa verið að draga sig meira saman í seinni tíð og njótum við félagarnir góðrar samveru í Grunnavík á hverju hausti. Þær ferðir höfum við vinirnir farið óslitið frá haustinu 2006. 

DEILA