Vesturbyggð: átta styrkir samþykktir

Listasafn Samúels er í Selárdal í Arnarfirði.

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum 10. maí að veita átta styrki.

Magnús Thorlacius fékk 150 þús kr. styrk fyrir uppsetningu einleiksins Flokkstjórinn á Patreksfirði og Bíldudal. 

Félag um Ljóðasetur Íslands fékk einnig 150 þúsund kr. styrk fyrir verkefnið Þorpin þrjú þar sem ljóðskáldin Þórarinn Hannesson og Ólafur Sveinn Jóhannesson flytja ljóð á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði. 

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir fékk 50 þúsund kr. styrk fyrir fjölskyldusmiðjuna Skapandi skrúfur.

10. bekkur Patreks- og Bíldudalsskóla fékk 90m þúsund króna styrk fyrir útskriftar- og menningarferð til Barcelona í lok maí eða 10 þúsund krónur á hvern nemanda.

Sögufélagi Barðastrandarsýslu var veittur 140 þúsund króna styrkur vegna útgáfu árbókar Barðastrandarsýslu 2023 sem kom út í desember síðastliðnum.

Félag um listasafn Samúels fékk 150 þúsund króna styrk fyrir sjöundu listahátíð Samúels sem haldin verður 19.-21. júlí 2024. 

Blús milli fjalls og fjöru fékk styrk sem nemur leigu á félagsheimili Patreksfjarðar fyrir þrettándu blúshátíðinni sem verður haldin í lok ágúst 2024. Auk þess leggur ráðið til að gerður verði samningur við aðstandendur hátíðarinnar líkt og við aðrar bæjarhátíðir.

Foreldrafélag Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku fékk styrk vegna páskabingós félagsins 2024 sem nemur leigu á félagsheimilinu Baldurshaga.

DEILA