Vegferð til framtíðar – Vestfirðingar komið með!

Vestfjarðastofa vinnur um þessar mundir að tveimur mikilvægum og stefnumótandi áætlunum fyrir Vestfirði. Annars vegar er það Svæðisskipulag Vestfjarða sem nú er gert í fyrsta sinn og hins vegar er það Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029. Í vinnu sem þessari er gríðarlega mikilvægt að sem flestir komi að borðinu og köllum við því eftir að Vestfirðingar allir, ungir sem aldnir, nýir sem rótgrónir, láti sig málið varða og taki þátt í vinnuferlinu. Þess gefst kostur á íbúafundum sem haldnir verða víðsvegar um Vestfirði dagana 27.-30. maí n.k.

Sameiginlegt skipulag fyrir Vestfirði í heild sinni er megininntak svæðisskipulags, líkt og má geta sér til um út frá nafngiftinni. Þetta er langt ferli sem mun í heildina taka um tvö ár frá upphafi vinnu og þar til fullmótað skipulag lítur dagsljósið. Yfirstjórn þessa verkefnis er á vegum Svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða sem skipað er fulltrúum allra sveitarstjórna á Vestfjörðum. Til framkvæmdar verksins hefur nefndin með sér starfsmenn Vestfjarðastofu og VSÓ ráðgjöf sem valin var á grundvelli útboðs í byrjun árs. VSÓ hefur sér til fulltingis skipulagsráðgjafafyrirtækið Úrbana, sem einnig vinnur að Sóknaráætlun 2025-2029 með Vestfjarðastofu.

Samfélög, atvinnulíf og innviðir á Vestfjörðum ganga nú í gegnum jákvæðar umbreytingar eftir langt tímabil niðursveiflu. Sveitarfélögin telja mikilvægan lið í áframhaldi á þeirri velgengni að ná samstöðu um framþróun landshlutans og svæðisskipulagið er tæki sem hentar mjög vel til að móta sameiginlega, skýra stefnu. Svæðisskipulagið tekur á málefnum byggðaþróunar og þeim þáttum landnotkunar sem talið er þörf á að samræma vegna sameiginlegra hagsmuna hluteigandi sveitarfélaga. Það eru fjölmargir sem koma að ferlinu við mótun þess og er leitast við að gera það þannig úr garði að Vestfirðingar flestir upplifi að þeir eigi hlutdeild í því. Skipulagið nær til ársins 2050 – því stefnumótandi til framtíðar og afar mikilvægt að sem flestir sem sjá framtíð sína á Vestfjörðum taki þátt í vinnunni.

Sóknaráætlun Vestfjarða má lýsa sem stefnumótandi aðgerðaráætlun fyrir svæðið til fimm ára í senn. Hver og einn landshluti gerir sína sóknaráætlun samkvæmt samningi við innviðaráðuneyti og menningar- og viðskiptaráðuneyti og fær fjármagn frá þeim inn í rekstur áætlunarinnar. Í sóknaráætlun kemur fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Fjórir megin málaflokkar eru í sóknaráætlunum: atvinna og nýsköpun, samfélag, umhverfi og skipulag og menning.

Snertifletir sóknaráætlana við hinn almenna borgara eru margir, en það sem fólk verður einna helst vart við eru uppbyggingarsjóðirnir sem veita talsverðu fé ár hvert til fjölmargra verkefna. Hvað valið er að styrkja byggir á þeim áherslum sem eru í sóknaráætlun hverju sinni og með því að taka þátt í stefnumótunarvinnu Sóknaráætlunar 2025-2029 getur þú haft áhrif.

Á íbúafundum í næstu viku verður leitað eftir samráði við Vestfirðinga og verða þeir sem hér segir:

27. maí Félagsheimili Patreksfjarðar

29. maí Edinborgarhúsið á Ísafirði

30. maí Félagsheimili Hólmavíkur

30. maí Reykhólaskóli

Allir fundirnir hefjast klukkan 16:30 og standa í u.þ.b. tvær klukkustundir. Til að sem flestir geti mætt verður boðið upp á barnapössun á meðan á þeim stendur. Í lok funda verður boðið upp á grillaðar pylsur til að fagna góðu verki.

Við hvetjum alla Vestfirðinga til að mæta og eiga þannig kost á því að láta rödd sína heyrast. Vestfirðir eru okkar allra sem hér búum og því mikilvægt að sem flestar raddir heyrist!

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunar Vestfjarðastofu

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA