UUA: hafna bráðabirgðastöðvun eldis við Sandeyri

Frá Sandeyri.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kröfu eiganda jarðarinnar Sandeyri í Ísafjarðardjúpi um stöðvun á laxeldi Arctic Fish við Sandeyri.

Eigandinn kærði útgáfu byggingarleyfis fyrir kvíarnar og krefst þess að leyfið verði fellt úr gildi. Er sú krafa enn til meðferðar hjá nefndinni og verður úrskurðar síðar um hana.

En auk þess var krafist að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þangað til að úrskurður fellur um bannkröfuna. Í því felst að kvíarnar verði teknar upp og öllum fiski í þeim lógað.

Úrskurðarnefndin afgreiddi seinni kröfuna á miðvikudaginn og hafnaði henni.

Nefndin segir í niðurstöðu sinni að kærandi geti krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, en framkvæmdum á grundvelli hins kærða byggingarleyfi hafi verið lokið þegar kæra þessa máls barst nefndinni. Því  sé ekki til dreifa þeim lögbundnu skilyrðum fyrir stöðvun framkvæmda sem lögin áskilja.

Kærandi telur að framkvæmdin hafi veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljósmengunar og sjónmengunar. Auk þessa fari framkvæmdirnar í bága við skipulag og lög um vitamál nr. 132/1999 sem og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um siglingaöryggi þar sem mannvirkin séu staðsett í ljósgeisla frá Óshólavita.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun sem gaf út leyfið telur að ekki sé ástæða til að stöðva framkvæmdir þar sem stofnunin hafi staðið rétt að afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Jafnframt standist byggingarleyfið þær kröfur sem gerðar séu til þess í lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Arctic Fish  benti á að kærandi byggi málatilbúnað sinn nær eingöngu á því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað í netlögum jarðarinnar Sandeyri, en framkvæmdin sé í raun alfarið utan þeirra. Við þær aðstæður teljist kærandi ekki aðili þess stjórnsýslumáls sem lúti að umsókn leyfishafa um hið kærða byggingarleyfi og beri því að vísa kærunni frá heild, en ella hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Þá sé ekki hægt að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda þar sem fyrir liggi að leyfishafi hafi nú þegar reist og tekið í notkun þau mannvirki sem heimilt hafi verið að reisa á grundvelli leyfisins.

DEILA