Þarf botnmálning skipa að fara í umhverfismat?

Í byrjun apríl síðastliðnun ákvað Skipulagsstofnun að gera þyrfti sérstakt umhverfismat fyrir notkun ásætuvarna Arctic Fish í sjókvíaeldi í Arnarfirði. Ástæðan er að notað er efni með koparoxíð til þess að setja á kvíarnar. Notkun koparins gerir það að verkum að á netin setjast síður lífverur. Að öðrum kosti þarf reglulega að háþrýstiþvo næturnar sem hefur slæm áhrif á eldisfisk sem í þeim er og veldur sliti á nótunum.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að fyrirhuguð framkvæmd væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Af átta umsagnaraðilum var það aðeins skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar sem vildi að framkvæmdin færi í umhverfismat, en t.d. bæði Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun töldu að það myndi ekki ekki varpa skýrari mynd á áhrif notkunar ásætuvarna á umhverfið. Í umsögn Vesturbyggðar segir að ekki liggi fyrir hvort notkun ásætuvarnanna, geti haft í för með sér óafturkræf áhrif á náttúru í Arnarfirði og telur ráðið „því eðlilegt að framkvæmdin fari í umhverfismat vegna þeirrar óvissu sem er um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.“

Sama efni í botnmálningu

Nú er komið í ljós að í algengri skipamálningu er sama efni samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Þannig er Seaforce 30m með jafnmikið koparmagn og í Netwax, sem notað er í sjókvíunum og önnur tegund af skipamálningu, SeaQuantum Ultra S er með mun meira magn af kopar.

Þetta vekur upp spurninguna hvort botnmálning skipa og báta verði ekki að fara í umhverfismat. Væntanlega eru áhrifin af koparefninu í málningunni á umhverfið jafn líkleg til þess að vera umtalsverð og sama efni í ásætuvörnunum. Töluvert magn þarf af botnmálningu skipa og báta þarf í hvert sinn en það ræðst endanlega af stærð skipsins. Það er spurning hvort skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hafi lagt mat sitt á umhverfisráhrifin af skipamálningu.

-k

DEILA