Tálknafjarðarhreppur samþykkir aðalskipulag

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkti 23. apríl nýtt aðalskipulag fyrir Tálknafjarðarhrepp fyrir tímabilið 2019 – 2039. Fjórir sveitarstjórnarmenn samþykktu tillöguna en einn sat hjá. Sá gerði athugasemd við afgreiðslu aðalskipulagsins á 16. fundi skipulagsnefndar þar sem varamaður var ekki kallaður til er aðalmaður vék af fundi vegna vanhæfis á meðan athugasemd frá Tungusilungi var tekin fyrir.

Aðalskipulagsbreytingin hefur verið send Skipulagsstofnun sem sér um lokaafgreiðslu erindisins. Við gildistöku þess fellur eldra skipulag úr gildi. Hægt er að kæra samþykkt bæjarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um samþykkt aðalskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda segir á vef sveitarfélagsins.

Á sama fundi var einnig samþykkt deiliskipulag fyrir stofnana- og íþróttasvæðis á Tálknafirði með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar.

Minjastofnun gerði athugasemd þar sem skráning fornminja liggur ekki fyrir. Senda þarf því tillöguna
aftur til Minjastofnunar til umsagnar þegar skráningin liggur fyrir. Einnig verður bætt við lóð fyrir spennistöð sem er með skilgreindan byggingarreit.

Sameining Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar tekur formlega gildi 19. maí næstkomandi.

DEILA